Hringbraut skrifar

Sölvi er látinn langt fyrir aldur fram: „elsku kæri grét í kjölt­unni minni“ - kerfið brást

21. febrúar 2020
17:30
Fréttir & pistlar

„Svo kom að því að Sölvi gat ekki leng­ur af­neitað und­ir­liggj­andi ástandi sínu. Elsku kæri burðaðist með mikla verki í skrokkn­um, kallaði þá óbæri­lega, grét í kjölt­unni minni. Hann varð sí­fellt helteknari og í leit­inni að lækn­ingu varð ör­vænt­ing­in átak­an­leg. Þá missti hann til­trú á að fá bót meina sinna og gat ekki meir.“

Þetta segir Katrín Mixa, unnusta listamannsins Sölva Jónssonar. Sölvi sem var allt í senn, hugsjónamaður, skáld og tónlistarmaður, er látinn en hann var aðeins 44 ára þegar hann féll frá. Margir sem þekkja til Sölva hafa borið lof á verk hans en eins og margir aðrir listamenn naut hann lítillar viðurkenningar.

Einnig er fjallað um Sölva á vef DV. Þar kemur fram að Sölvi hafi þjáðst af miklum verkjum í kjölfar  hnjáaðgerðar. Hann leitaði sér lækninga af ákafa en heilbrigðiskerfið brást. Hann sá að lokum aðeins eina leið til að takast á við sársaukann.

Tónlist, bækur og greinar

\"\"Sölvi Jóns­son fædd­ist í Reykja­vík 26. ág­úst 1975. Hann lést 9. fe­brú­ar 2020. Sölvi eignaðist eitt barn, Snorra Brynjar. Sölvi var tónlistarmaður sem samdi yfir 200 lög og skrifaði skáldverk. ölvi starfaði lengst af á skamm­tíma­vist­un Holta­vegi og síðar í liðveislu fyr­ir fjölda fatlaðra skjól­stæðinga á höfuðborg­ar­svæðinu. Sölvi sem var aðeins 44 ára þegar hann lést gafst upp vegna stöðugra verkja eftir aðgerð. Vinir hans og unnusta segja heilbrigðiskerfið hafa brugðist

Sölvi lagði stund á fjöl­breytta list­sköp­un. Í fyrstu einkum skrif, ljóð hans birt­ust m.a. í Les­bók Morg­un­blaðsins og lauk hann ung­ur við tvær barna­bæk­ur. Einnig hannaði hann og bjó til fjöl­mörg borðspil og leik­föng. Síðustu ár ein­beitti Sölvi, und­ir lista­manns­nafn­inu Dölli, sér einkum að tón­smíðum. Barnaplat­an Viltu vera memm? kom út 2015 og var fylgt eft­ir með tón­leik­um á fjöl­mörg­um leik­skól­um borg­ar­inn­ar. Önnur plata, Upp upp mín sál – og mitt hjarta, milta, nýru, lungu og lif­ur með, kom svo út 2017. Ótal verk liggja síðan óút­gef­in. Bar­átt­an gegn mis­rétti og vel­ferð þeirra sem minna mega sín var gjarn­an inn­tak ljóða og textasmíða Sölva. Þá var ort um ást­ina og fjallað um nátt­úr­una og allt sem í henni býr.

Segja heilbrigðiskerfið hafa brugðist

Þá vitnar DV í Magnús Skarphéðinsson formann Sálar­rann­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur sem skrifaði minningargrein í Morgunblaðið í dag. Magnús segir:

„Vinur okkar Sölvi Jónsson hefur lokið þessu stutta en því miður frekar erfiða jarðlífi sínu, aðeins 44 ára. Og það var hans eigin ákvörðun að því yrði lokið nú. Og ég get ekki annað en skilið hana í ljósi þeirra stanslausu líkamlegu þjáninga sem hann var kominn í. Hann sagði mér þessa ákvörðun sína örfáum dögum áður í síma af mikilli yfirvegun. Og röksemdir mínar um hið gagnstæða höfðu þar engin áhrif.“

Þá gagnrýnir Magnús heilbrigðiskerfið harðlega og segir það hafa brugðist.

„Þetta auma og rándýra heilbrigðiskerfi gat hvorki læknað líkamleg mein Sölva, manns á besta aldri, né gefið honum neina von. Það eina sem það gat var að leggja sig í líma við að rífa af honum sem öðrum trúna. Trúna á einhvern æðri tilgang. Trúna á einhvern sem hægt var að biðja til og tala við, þótt maður heyri ekki alltaf svörin beint.“

Mikið gat hann elskað

Katrín Mixa, unnusta Sölva minnist hans bæði í Morgunblaðinu og á Facebook en þau byrjuðu að stinga saman nefjum árið 2016:

\"\"„En mikið gat hann elskað ...“ segir Katrín í minningargrein sinni og bætir við á öðrum stað: „Sölvi leitaði í hægðina, af­neitaði jafn­vel öllu sem hampaði hraðanum. Tím­un­um sam­an gat hann haft á end­ur­spil­un íhug­un­ar­disk með upp­töku af bráðnandi ís. Hann var löngu bú­inn að leggja öku­skír­tein­inu, stólaði sjaldn­ast á annað en það sem hann gat nálg­ast fót­gang­andi, sótti í nátt­úru og hlýja nær­veru. Þessu fylgdu tíðar bóka­safns­ferðir, göngu­túr­ar, kaffi­húsa­seta með borðspil við jafn­vel bara sjálf­an sig og dundferðir í Góða hirðinn.

Svo var það veg­lega borðspila­safnið og bóka­kost­ur sem seint mun telj­ast meg­in­straums. Einnig veganisminn í þágu dýra­vel­ferðar, skífusím­inn á heim­il­inu og takkasím­inn í jakk­an­um í yf­ir­lýstri and­stöðu við snjall­tækn­ina, geisladisk­ar og tak­markað net­sam­band.

Mér var alltaf boðið með, viðtök­ur af minni hálfu of mis­jafn­ar, of fálát­ar. Þessi hægi takt­ur til­ver­unn­ar smitaðist í upp­eldi Snorra Brynj­ars og nema hvað, jafn skýru, hlýju og glaðlyndu barni hef ég varla kynnst. Ver­andi þetta gjöf­ull var Sölvi á sama tíma fullmeðvitaður um þunga ögrana, and­stöðuviðmóts og yf­ir­lýs­ing­anna sem öllu þessu gat fylgt.“

Þá bætir Katrín við:

„Sölvi minn var afar gjöf­ul sál, í öllu sínu sér­lyndi og á skjön við meg­in­straum­inn, ógleym­an­leg­ur per­sónu­leiki. Hann gat unað lengi við leiðir til að bæta minn hag, óum­beðinn, án stjórn­lynd­is og til­rauna til að ráðskast með. Þá fann hann sinn sess í liðveislu fyr­ir fólk með haml­an­ir, sem hann helst vildi bjóða heim í borðspil.“

Þá segir Katrín í lok minningargreinar sinnar:

„Elsku kæri burðaðist með mikla verki í skrokkn­um, kallaði þá óbæri­lega, grét í kjölt­unni minni. Hann varð sí­fellt helteknari og í leit­inni að lækn­ingu varð ör­vænt­ing­in átak­an­leg. Þá missti hann til­trú á að fá bót meina sinna og gat ekki meir. Eft­ir stend­ur safn áþreif­an­legra sem hug­lægra hluta, sem halda á lofti minn­ingu um ást­vin, van­met­inn lista­mann, hjarta­stór­an og stund­um ber­skjaldaðan, eng­um lík­an mann.“

Tónlistarmaðurinn Róbert Örn Hjálmtýsson var náinn vinur Sölva. Hann rifjar upp feril hans í ítarlegu máli á Facebook en þá grein má lesa hér. Í greininni segir Sölvi meðal annars:

\"\"„Það var líka einstaklega fallegt hvernig Sölvi kaus að eyða tímanum sínum en þegar hann var ekki með strákinn sinn, þá var hann oftar en ekki að sinna liðveislu en hann var með marga fatlaða einstaklinga undir sínum verndarvæng og með allskonar prógramm fyrir þá, sérhönnuð fyrir hvern og einn, s.s eins og haug af borðspilum og sumum þeirra var ekki hægt að pakka niður eftir kvöldið því spilið var ekki einnar kvöldstundar gaman. Það var greinilegt að honum fannst þetta mjög skemmtilegt og setti mikinn metnað í stundirnar með þeim.
Reyndar setti hann mikinn metnað í allt sem hann gerði og það var stíll yfir öllu.“

Þá segir Róbert að það hafi verið afar sorglegt að Sölvu hafi ekki fengið þá viðurkenningu sem hann átti skilið. Sjálfur var Sölvi þó ekki að sækjast eftir frægð og frama. Það hafi verið of yfirborðskennt fyrir hans smekk. Róbert segir að Sölvi hafi verið gáfum gæddur og bæði lagatextar og blaðagreinar beri þess vitni.

Róbert segir:

„Hann hafði sterka og næma réttlætiskennd og stundum hitti hann naglann svo kirfilega á hausinn að meira að segja almenningur í kjötvímu tók eftir og var sammála honum,“ segir Róbert og bætir við:

„Góður maður er farinn og verður sárt saknað en hann er einn af fáum sem hefur farið og verið í plús í samfélaginu. Hann gaf meira en hann tók. Það eru góð og sönn eftirmæli. Það eru forréttindi að hafa þekkt Sölva og gert tónlist með honum.“

Sölvi Jónsson var jarðsettur í dag.