Sólveig anna fagnar afgerandi niðurstöðum atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir: „okkar tími er núna! ég dey úr gleði!“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, greindi frá því á Facebook síðu sinni í dag að hún væri gífurlega ánægð með niðurstöður atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir sem kynntar voru í dag.

Tæplega 1900 manns voru á kjörskrá en rúmlega 1100 greiddu atkvæði sem reyndist metþátttaka. Alls voru 1071 sem greiddu atkvæði með samningnum eða rúm 95 prósent. „Til hamingju við! Takk fyrir allt saman, alltaf! Okkar tími er núna! Ég dey úr gleði!“ skrifar Sólveig í einni færslunni. 

„Takk, kæra fólk, kæru félagar, fyrir að senda þessu mögnuðu skilaboð til þeirra sem að fara með völd í þessari borg, stærsta láglaunavinnustað landsins! Takk fyrir samstöðuna hvert með öðru og með ykkur sjálfum! Takk fyrir að vita nákvæmlega hvað sterkasta vopn vinnandi fólks er! Takk fyrir að skera upp herör gegn viðbjóðslegri lágalaunastefnu sem að heldur konum niðri! Takk fyrir að neita að vera áfram á útsölumarkaði atvinnurekenda,“ skrifaði Sólveig í annarri færslu.

 

Verkfallsboðun verður afhent á morgun en skipulag verkfallsaðgerða verður með eftirfarandi hætti: 

  • Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
  • Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
  • Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það