Sólveig Anna: „Ég hef ekki verið vandamálið í þessum samskiptum“

Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður Eflingar á ný í gærkvöldi. Sólveig Anna sagði af sér með miklum látum í fyrra og hafa margar ásakanir komið fram um ógnarstjórn af hennar hálfu og kvenfyrirlitningu af hálfu Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra og náins samstarfsmanns Sólveigar.

Þess má þó geta að enginn hefur beinlínis stigið og sagt vera vitni af slíkum tilburðum, hafa þær frásagnir ýmis verið frá þriðja aðila eða nafnlausar.

Sólveig Anna sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það liggi ekki fyrir hvort Viðar sneri aftur eða ekki, það væri stjórnarinnar að ákveða það.

Þá var hún spurð hvort hún sæi sér fært að vinna með fólkinu sem hún segir hafa grafið undan sér:

„Ég get og hef unnið með fólki sem að sýnir mér vinsemd og virðingu. Ég hef alltaf lagt mig fram að sýna fólki vinsemd og virðingu. Ég hef ekki verið vandamálið í þessum samskiptum. Við skulum sjá hvað gerist.“

Hún segir að markvisst hafi verið unnið gegn sér:

„Deginum eftir að kosningarnar hefjast í Eflingu þá sendir starfandi framkvæmdastjóri og starfandi formaður, sem bera ábyrgð á félaginu, yfirlýsingu til fjölmiðla þar sem Viðar og ég erum ásökuð um þessa hluti. Þetta er með miklum ólíkindum þessi einbeitta aðför að mannorði okkar og að mínu viti einbeitt inngrip inn í kosningarnar til að hafa áhrif á kosningarnar.“