Snorri missti lífs­föru­naut sinn og allar eigur á sunnudag: Hefja söfnun eftir elds­voðann á Auga­stöðum

Söfnun hefur verið sett af stað til stuðnings Snorra Jóhannes­syni, bónda á Auga­stöðum í Hálsa­sveit í Borgar­firði. Eldur kom upp í í­búðar­húsinu á bænum á sunnu­dag með þeim af­leiðingum að eigin­kona Snorra, Jóhanna Guð­rún Björns­dóttir, lést. Jóhanna var ein í húsinu þegar eldurinn kom upp.

Á vef Skessu­horns er fjallað um söfnunina og vitnað í Face­book-færslu Ár­dísar Kjartans­dóttur, mág­konu Snorra, þar sem hún segir meðal annars:

„All­margir hafa haft sam­band, bæði við okkur og aðra í ættingja- og vina­hópi Snorra og Hönnu. Þetta góða fólk vill leggja sitt af mörkum til að gera eftir­leikinn bæri­legri fyrir Snorra. Þau heiðurs­hjón voru enda vin­mörg, sem ekki er að undra, elsku­leg, hjálp­söm, rögg­söm, dug­leg, bros­mild, hlátur­gjörn og hörku­dug­legt eðal­fólk. Frá­bær­lega gest­risin og skemmti­leg heim að sækja á Auga­staði. (Það fyrsta sem mér kemur ein­mitt í hug þegar ég minnist Hönnu er dillandi hlátur hennar).“

Segir Ár­dís að til að svara þessu kalli hafi verið stofnaður styrktar­reikningur í nafni Snorra, en reiknings­upp­lýsingarnar má finna hér neðst.

Í­búðar­húsið brann til grunna og segir Ár­dís að Snorri hafi ekki bara misst lífs­föru­naut sinn heldur heimili og allar eigur.

Reiknings­númerið er: 0322-13-400032 og kenni­talan: 211247-3049