Snæbjörn biðst innilegar afsökunar: Hef kosið að líta fram hjá ofbeldi

Spjallþáttastjórnandinn Snæbjörn Ragnarsson biðst innilegrar afsökunar á hegðun sinni og kveðst ætla að bæta sig, í einlægri færslu sem hann birti á samfélagsmiðlum.

Snæbjörn segir nýjustu bylgju MeToo auk samtals við Þorstein Einarsson, í Karlmennskunni, hafa opnað augu hans.

Frekjan réði ríkjum

„Ég hef beitt ofbeldi án þess að vita af því. Og stundum hef ég vitað af því en kosið að líta framhjá því, eða leyft sjálfum mér að njóta vafans um að hlutirnir hafi verið í lagi,“ segir Snæbjörn.

„Ég hef gert það í ljósi þess að sýnast frakkur, skemmtilegur og uppátækjasamur en þegar ég legg spilin niður fyrir framan sjálfan mig sé ég að ég hef fyrst og síðast verið frekur.“

„Ég hef ekki áttað mig á er að ég sem einstaklingur í algerri forréttindastöðu hef ég með þessum aðferðum gersamlega valtað yfir aðra, og oftar en ekki konur.“ Stundum hafi hann kosið að heyra ekki eða beygt raunveruleikan eftir eigin hentisemi.

Trúr þolendum

„Mér líður ekki eins og ég hafi stór mál á samviskunni, ég vil að öllum líði vel og ég vil vera metinn sem maður sem lætur sig líðan annarra varða.“ Það sé friðþægjandi. „En það breytir engu um það hverslags dólgur ég hef verið í samskiptum og alvarleika þess.“

Mikilvægt sé að horfa ekki í hina áttina og koma augu á óþægilegu málin. „Það er sárt að horfast í augu við það að hafa sett eigin frekju ofar á listann en virðingu fyrir öðrum,“ segir Snæbjörn.

„Ég biðst innilegrar afsökunar á því og lofa að bæta mig með öllum ráðum. Ég er femínisti. Ég trúi þolendum. Ég vil gera mitt til þess að bæta samfélagið.“