„Hef bara verið rosalega þreyttur og pirraður"

Smári McCarthy, þingmaður Pírata hefur líkt og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður sama flokks, ákveðið að halda ekki áfram á þingi eftir ár, þegar kjörtímabilinu lýkur. Hann segir ýmislegt koma til við þá ákvörðun.

„Eitt af því stærsta er að ég hef haldið því fram frá því að ég fór fyrst að skipta mér af pólitík að það væri ekkert jákvætt að fólk væri of lengi“, segir Smári

„Og ef lýðræði er þetta konsept að allir eiga að vinna að því saman að láta samfélagið ganga þá virkar það ekkert sérstaklega vel ef að það er alltaf ef það eru alltaf þeir sömu sem sitja á valdastólum. Það er fínt að hafa nýliðun, samt ekki oft mikla en það hefur verið mikil nýliðun undanfarin ár“

„Ég er alla vega að bjóða upp á það að aðrir taki mitt sæti en svo er hin hliðin sem er að lífið er ekki endalaust og ég hef fullt af hugmyndum og þekkingu og færni sem er ekkert að nýstast mjög vel inni á þingi“.

Þar á Smári við þekkingu hans í tölvutækni og áhuga hans á umhverfismálum sem hann vill nýta betur.

Getur þingseta ekki gagnast þeim sem vilja vinna í umhverfismálum?

„Ég hef bara verið rosalega þreyttur og pirraður á því hvað það er mikið talað um að reyna að bregðast við loftslagsbreytingum en ótrúlega verið gert í því“

Hann gefur ekki mikið fyrir áætlanir og gerðir umhverfismálaræðherra og telur Ísland geta beytt sér mun betur og meira á alþjóðavettvangi en nú er.

„Ég held að við gætum verið að gera svo miklu meira“.

Árið 2016 fengu Píratar mikið fylgi, bæði í skoðanakönnunum og í þingkosningum. Þetta var árið sem Panamasjölin voru gerð opinber.

Er þetta flokkur reiða fólksins?

„Í rauninni voru Panamaskjölin punkturinn þar sem við fórum að lækka í fylgi. Við fórum að hækka eftir að Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, einhliða að draga til baka umsókn Ísland inn í Evrópusamstarfið“.

„Nú hefur viðkvæði Pírata alltaf verið að þjóðin ákveði með Evrópusambandið“

Ykkar prófíll hefur þó ekki verið Evrópusambandsaðild?

„Málið er að við höfum alltaf sagt að við viljum eiga samtal um þetta og ég held að það séu margir á Íslandi sem myndu vilja eiga þetta samtal hvort sem þeir eru með eða á móti“.

Hann segir þetta enn eitt málið sem sé hertekið af stjórnmálamönnum og þjóðin fær einhvern vegin aldrei að segja sitt.

„Og með því að vera alltaf flokkurinn sem hefur talað fyrir því að reyna að fá þjóðina að borðinu, reyna að fólk geti tekið þátt þá voru kannski Píratar flokkur sem fólk sá sem minnst ógeðslegi flokkurinn“.

Hvað meinarðu með ógeðslegum?

„Eins mikið og mér finnst það leiðinlegt þá eru bara margir sem upplifa stjórnmál sem svolítið ógeðsleg og við þurfum að laga það og þingheimur ætti að vera meira samtaka í því að reyna að draga úr þessari upplifun“.

Smári er einn af helstu stofnendum Pírataflokksins árið 2012 og verið þingmaður hans frá 2016.