Smækkunarstjóri sjálfstæðisflokksins

Guðmundur Andri Thorsson kemst þannig að orði í Fréttablaðinu í dag að Davíð Oddsson sé “smækkunarstjóri” Sjálfstæðisflokksins með því að reka forystu flokksins áfram út í vitlausar aðgerðir í Evrópumálum sem leiða til kosningasvika sem ofbjóða ekki bara fjölda fráfarandi flokksmanna, heldur þorra landsmanna.

Í pistli sínum kemst Guðmundur Andri m.a. þannig að orði: “Smækkunarstjóri Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, úthúðar embættismönnum að vanda og hvetur til tafarlausra og afdráttarlausra viðræðuslita, en það er eins og ríkisstjórnin sé að reyna að koma hinni endanlegu ákvörðun yfir á Evrópusambandið. Það er með öðrum orðum ekki nóg með að núverandi ráðamenn vilji sækja öll þessi lög og reglugerðir til ESB heldur reyna þeir líka að koma yfir á ESB sinni eigin höfnun á aðild að því. Það gengur brösuglega. Ráðherrar reyna að sýna klókindi, en flækjast einhvern veginn í eigin klækjum.”

Þarna kemst Guðmundur enn einu sinni vel að orði. Finnur nýyrðið “smækkunarstjóri” en hjá ESB var Stefan Fühle lengi “stækkunarstjóri” og út úr nafni hans snéri Moggin gjarnan og kallaði hann Stefán fúla. Vitað er hvaðan aulahúmor af því tagi kemur innan blaðsins.

Davíð var á vissu skeiði ferils síns farsæll stjórnmálamaður og sópaði fylgi að flokki sínum, fyrst í borgarstjórn og svo í alþingiskosningum – framan af. Svo fór að halla undan fæti upp úr aldamótum og flokkurinn byrjaði að skreppa saman í höndum hans. Í síðustu kosningum Davíðs sem formanns fékk flokkurinn einungis 33%. Í kosningunum 2007, undir forystu Geirs Haarde fór hann upp í 37% og svo kom hrunið.

Með framgöngu sinni á rtstjórastóli Mogga er Davíð stöðugt að skaða flokkinn, smækka hann. Með offorsi og ósveigjanleika er flokkurinn að festast í fylgi niðurundir 20%. Davíð hefur keyrt veikburða forystu flokksins áfram í ESB málum og á því mesta sök á slæmu gengi úr því forystan hefur ekki burði til að láta kröfur Davíðs lönd og leið.

Hann ber því titilinn “smækkunarstjóri” með sóma