Skjálftar og eftirskjálftar í Valhöll

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vann glæstan sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þrátt fyrir að flokkseigendaklíkan sem heldur um alla þræði í Valhöll berðist með kjafti og klóm gegn honum.

Ljóst er að þessi niðurstaða fer nokkuð fyrir brjóstið á flokkseigendum enda var mun meira í húfi en bara forystuhlutverkið í Reykjavík. Bjarni Benediktsson hefur nú setið á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum í 12 ár og hafa einungis Ólafur Thors og Davíð Oddsson setið lengur. Því er eðlilegt að komnar séu upp vangaveltur um það hvort Bjarni hugsi sér brátt til hreyfings. Ýmsir eru raunar þeirrar skoðunar að takist flokknum illa upp í kosningunum í haust og lendi utan ríkisstjórnar muni verða kallað eftir breytingum á toppnum.

Foringi flokksins í Reykjavík stendur þá mjög sterkt að vígi. Af níu formönnum flokksins fram til þessa hafa sex verið forystumenn í Reykjavík. Prófkjörið um liðna helgi var þannig ekki síður um framtíðarformann Sjálfstæðisflokksins en oddvitasætið í borginni.

Guðlaugur Þór vann góðan sigur þrátt fyrir að flokkseigendur legðust á árar til að tryggja Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur leiðtogasætið í höfuðborginni. Þetta olli hörðum skjálfta í Valhöll og hafa ýmsir þar á bæ reynt að túlka niðurstöðu prófkjörsins sem sigur dómsmálaráðherra þrátt fyrir að hún hafi borið lægri hlut gegn utanríkisráðherra.

197489870_10157855559123204_7336628989600964620_n.jpg

Stuðningsmenn Guðlaugs Þórs eru mjög ósáttir við kynningarefni sem sent var frá Valhöll um úrslit prófkjörsins. Telja þeir Áslaugu Örnu hampað óeðlilega og lítið gert úr sigri Guðlaugs. Þeir gripu þess vegna til sinna ráða og létu útbúa sérstaka kynningarmynd af oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem sjá má hér að ofan. Ekki þarf þekkingu í dulmálsfræðum til að lesa skilaboðin sem verið er að koma á framfæri. Myndinni er meðal annars dreift með tölvupósti þar sem kemur skýrt fram að aðeins sé EINN oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Segja má að í Valhöll reki nú hver skjálftinn og eftirskjálftinn annan og hugsanlega er gosórói í kortunum.

- Ólafur Arnarson