Skiptar skoðanir á auglýsingu Þjóðkirkjunnar: „Guðlast á háu stigi“

Fjölmargir hafa tjáð sig um auglýsingu Þjóðkirkjunnar fyrir Sunnudagsskólann sem birt var á Facebook síðu kirkjunnar í gær en auglýsingin sýnir Jesú með skegg og brjóst dansandi við regnboga.

Skiptar skoðanir eru á auglýsingunni en á annað hundrað manns hafa skrifað ummæli við færslu kirkjunnar.

„Mér varð bara illt í hjartanu þegar ég sá þessa hræðilegu mynd. Hvað er að gerast í trúmálum okkar þjóðar. Hef íhugað að segja mig úr Þjóðkirkjunni, eingöngu vegna þessar hryllilegu myndar,“ skrifar ein við færsluna.

„Í tilefni birtingar skrípamyndar Þjóðkirkjunnar, af Frelsaranum á Fb. síðu sinni. Segi ég mig hér með, úr þjóðkirkjunni,“ skrifar annar á meðan enn annar sakar Þjóðkirkjuna um „guðlast á háu stigi.“

Þrátt fyrir að margir séu ósáttir við myndina og hafa hótað að segja sig úr Þjóðkirkjunni hafa aðrir hrósað kirkjunni fyrir að ýta undir fjölbreytileika.

„Ég skil þessa mynd þannig að þarna sé verið að fagna fjölbreytileikanum og að kirkjan sé fyrir alla,“ skrifar ein. „Meiriháttar plakat og mjög í anda kærleika og visku Krists,“ skrifar önnur.

Samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar, Pétur G. Markan, sagði í samtali við Vísi að viðbrögðin hafi verið í takt við því sem þau bjuggust við en að sögn Péturs getur kærleikurinn stuðað fólk.

„Það er mikil þörf á því að opna upp staðalmyndir, opna samfélagið og gera það fjölbreytt en ekki bara tala um það.“

Auglýsingin hefur vægast sagt vakið mikla athygli.
Mynd/Facebook