Skemmdir unnar á skilti Viðars Guðjohnsen: „Ég er ekkert spældur“

Skemmdir voru unnar á skilti Viðars Guðjohnsen, athafnamanns, sem stendur fyrir utan hús hans í Mörkinni. Að sögn Viðars átti atvikið sér stað í gær og náðust skemmdarvargarnir á myndband. Í myndbandinu sjást tveir ungir menn úða á skiltið og taka það upp á myndband.

Skiltið, sem er frægt fyrir skilaboðin um að lesa Morgunblaðið, styðja Donald Trump, hafna Evrópusambandinu og Schengen-samstarfinu, hefur staðið í nokkur ár. Viðar segir við Hringbraut að hann sé ekkert spældur. „Ég er ekkert spældur. Þetta eru ungir menn sem finnst þetta vera spennandi, þetta segir meira um ástandið heima fyrir,“ segir Viðar. Er þetta í þriðja skiptið sem skiltið er skemmt. „Ég kalla skiltið reiðimælinn, alltaf þegar einhver hávær umræða er um eitthvað eins og ESB eða Trump þá koma einhverjir og skemma það.“

Hann var fljótur að gera við skiltið. „Þetta náðist á myndband og það var hringt í mig. Ég flýtti mér út með terpentínu.“

Viðar segir að hann sé ekki reiður, þetta sé ekki í fyrsta skipti. „Húsið mitt hefur líka verið eggjað tvisvar, einu sinni þrjú um nótt, þá náðist bílnúmerið,“ segir Viðar. „Það má alveg skoða fordómana gagnvart því að fólk hafi skoðanir hérna á Íslandi. Það má ekki vera stuðningsmaður Trump til dæmis.“