Skelfileg mistök í úrslitum Morfís: Rangur sigurvegari tilkynntur – Sjáðu myndbandið

Segja má að miður skemmtileg uppákoma hafi orðið í úrslitaviðureign Flensborgarskólans og Verzlunarskóla Íslands í MORFÍS í gærkvöld þegar rangur sigurvegari var kynntur.

Óvíst er hvernig mistökin áttu sér stað en eins og sést á meðfylgjandi myndbandi brutust út gríðarleg fagnaðarlæti þegar kynnir keppninnar tilkynnti að lið Flensborgarskólans í Hafnarfirði hefði unnið.

Örskömmu síðar krafðist kynnirinn þess að fá þögn í salinn og var augljóst á þeim tímapunkti að einhvers konar mistök hefðu átt sér stað. Það kom á daginn og tilkynnti kynnirinn að lið Verzlunarskólans væri réttmætur sigurvegari með fleiri stig.

Fögnuður nemenda Flensborgarskólans varð því ekki langlífur en þess í stað kættust nemendur Verzlunarskólans. Atvikið minnir um margt á uppákomuna sem varð á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2017 þegar tilkynnt var að LaLaLand hefði unnið verðlaun fyrir bestu myndina. Það var leiðrétt skömmu síðar og tilkynnt að myndin Moonlight hefði verið valin best.

Myndband af atvikinu í gærkvöldi má sjá hér að neðan. Mbl.is greindi fyrst frá þessu.