Sjálftaka launa í sveitarstjórnum er hneyksli

Að undanförnu hafa komið fram margvíslegar fréttir um ótrúleg starfskjör sveitarstjóra og annarra sveitarstjórnarmanna sem eru ekki í neinu samræmi við eðli og umsvif starfa þeirra. Bornar hafa verið fram tillögur um lækkun þessara starfskjara en meirihlutar viðkomandi sveitarfélaga hafa umsvifalaust fellt slíkar sparnaðartillögur með hrokafullum hætti.

Svo virðist sem starfskjör sveitarstjóra séu hvað vitlausust þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður ríkjum eða kemur að myndun meirihluta sveitarstjórna. Þannig liggur það fyrir að starfskjör sveitarstjóra t.d. í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði eru betri en starfskjör borgarstjórans í Reykjavík sem rekur langstærsta sveitarfélag landsins þar sem fjöldi íbúa er 130 þúsund en til samanburðar búa 18 þúsund manns í Garðabæ. Sveitarstjórinn þar er með hærri laun en borgarstjórinn í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn og fékk tæplega helming alls fylgis í síðustu kosningum. Hæst launaði bæjarstjóri landsins er í Kópavogi. Þar er ný og alveg óreynd manneskja á sviði sveitarstjórnarmála með 2,5 milljónir króna í laun á mánuði. Talsvert meira en borgarstjórinn í Reykjavík sem stýrir margfalt stærra sveitarfélagi. Og bæjarstjórinn í Kópavogi er betur launaður en sjálfur forsætisráðherrann. Þetta er vitanlega alveg galið og engan veginn boðlegt. 

En starfskjör bæjarstjóra í stærstu sveitarfélögunum eru þó ekki ljótustu dæmin um meðferð sveitarstjórnarmanna á skattfé borgarana. Í Ölfusi búa rúmlega eitt þúsund manns. Þar er Elliði Vignisson sveitarstjóri og fær rúmar tvær milljónir á mánuði í laun. Hann var áður bæjarstjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestmannaeyjum en varð undir í valdabaráttu þar og flutti upp á land.

Seltjarnarnes er annað dvergsamfélag sem stjórnað er af Sjálfstæðisflokknum. Þar búa 4.500 manns sem er 3,5 prósent af íbúafjölda Reykjavíkur. Samt þykir flokksforystunni á Nesinu nauðsynlegt að greiða nýkjörnum bæjarstjóra sínum 2.4 milljónir í laun á mánuði. Þetta er meira en borgarstjóri Reykjavíkur fær í laun.

Seltjarnarnes er lítið og einfalt sveitarfélag sem ætti að vera mjög aðgengilegt að stjórna. Draga má í efa að embætti bæjarstjórans sé fullt starf. Fjármál bæjarins eru reyndar í ólestri og minnihluti bæjarstjórnarmanna gerði tillögu um að lækka þessi starfskjör bæjarstjórans um 500 þúsund krónur á mánuði til að vega upp á móti vondri skuldastöðu og veikri rekstrarafkomu bæjarins. Meirihluti sjálfstæðismanna felldi tillöguna umsvifalaust, án nokkurs rökstuðnings.

Einnig vekur furðu hve mikið er farið að greiða fyrir störf bæjar- og borgarfulltrúa sem hafa mun minna á sinni könnu en bæjarstjórarnir og borgarstjóri Reykjavíkur. Ef litið er á fjárhæðir vegna þessa í Reykjavík, þá kemur fram að enginn borgarfulltrúi hefur lægri laun á mánuði en kr. 1.179.598. Einnig þeir sem eru í minnihluta og hafa engin mikilvæg verkefni með höndum. Þeir sem eiga sæti í borgarráði, að ekki sé talað um forystu í nefndum eða ráðum, bera enn meira úr býtum eða allt að kr. 1.679.193 á mánuði. Því er haldið fram hér að fæstir borgarfulltrúanna ættu möguleika á að ná þessum starfskjörum úti á almennum vinnumarkaði. Trúlega ekki nema helmingi þeirra.

Auk þess er farið að greiða fyrsta varaborgarfulltrúa hvers flokks umtalsverð föst laun, eða að lágmarki kr. 911.958 á mánuði. Nokkuð óljóst er fyrir hvaða starfsskyldur það er.

Á undanförnum árum hefur verið tilhneyging til þess að gera störf sveitarstjórnarfulltrúa að fullu starfi. Alla vega er greitt fyrir störfin með þeim hætti. Ekki er langt síðan t.d. borgarfulltrúar í Reykjavík gegndu margvíslegum störfum samhliða setu í borgarstjórn og náðu þannig góðum tengslum við lífið í borginni. Betri en með því að einangra sig inni í borgarkerfinu sjálfu. Dæmi um það eru Sigurjón Pétursson, sem var starfandi formaður verkalýðsfélags, Ólafur B. Thors,sem var forstjóri stórfyrirtækis, Albert Guðmundsson, sem var alþingismaður og heildsali, Kristján Benediktsson, sem var yfirkennari, Júlíus Hafstein, sem rak fyrirtæki og var formaður HSÍ, auk þess sem Páll Gíslason og Katrín Fjeldsted voru starfandi læknar. Nefna mætti mörg önnur dæmi.

Ekki verður séð að borginni hafi verið verr stjórnað þegar borgarfulltrúarnir sinntu einnig daglegum störfum úti í samfélaginu og litu á borgarstjórnarþátttöku sem aukastarf.

- Ólafur Arnarson.