Sjálf­stæðis­menn reiðir: „Er ekki nóg komið af þessum til­hæfu­lausa hræðslu­á­róðri?“

Sjálf­stæðis­menn lýsa margir yfir á­hyggjum vegna um­mæla Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varnar­læknis á vef Frétta­blaðsins í gær. Þykir fólki hann ganga of langt með því að segjast ekki vilja draga of mikið úr sótt­varnar­ráð­stöfunum innan­lands vegna mögu­legs inflúensu­far­aldurs og RS veirunnar sem gæti herjað á lands­menn í vetur.

Sam­band ungra Sjálf­stæðis­manna sendi frá sér á­lyktun nú í morgun vegna þessa. Þar segir að „stjórn SUS fagni nýju minnis­blaði i for­sætis- og heil­brigðis­ráð­herra og þeirri stefnu­breytingu sem það virðist marka.“ Þá bæta þau við að það sé orðið löngu tíma­bært að endur­skoða á­herslur og að­gerðir í tak­mörkunum gegn Co­vid-19.

Stjórn SUS vill af­léttingar og það strax. „Orð sótt­varna­læknis í sam­tölum við fjöl­miðla síðast­liðna viku bera það aftur á móti með sér að hann telji ó­skyn­sam­legt að ráðast í frekari af­léttingar, m.a. í ljósi RS vírus og in­flúensu, pesta sem hafa komið upp ár­lega hér á landi síðast­liðna öld,“ segir í á­lyktuninni.

Þeim þykja nú­gildandi tak­markanir veru­lega í­þyngjandi og ekkert launungar­mál sé að þær leggist þungt á al­menning hér á landi. Þór­ólfur gefi lítið fyrir það og sýni þeim hópi ó­virðingu.

Þá segir að Ís­land eigi að njóta góðs af góðum árangri hér á landi. „Á­fram­haldandi tak­markanir í landi sem hefur náð jafn góðum árangri í bólu­setningum gegn veirunni og Ís­land standast vart skoðun, enda er Ís­land nú orðið eftir­bátur annarra Norður­landa sem hafa af­létt tak­mörkunum innan­lands með góðum árangri þrátt fyrir að bólu­setningar­hlut­fall þar sé lægra en hér á landi,“ ritar stjórn SUS.

Þau hvetja for­ystu­fólk Sjálf­stæðis­flokksins til þess að beita sér í þessum málum og vilja alls­herjar af­léttingar. „SUS bendir á að þegar um hvers konar í­þyngjandi tak­markanir gagn­vart frelsi fólks er að ræða, líkt og nú eru í gildi, þurfa þær að eiga sér ríka laga­stoð. Stjórn SUS hvetur þing­menn og ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins til þess að beita sér frekar fyrir því að nú­gildandi tak­mörkunum innan­lands verði al­farið af­létt.“

Þá ritar Hildur Björns­dóttir borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins færslu á Face­book þar sem hún baunar á Þór­ólf.

„Er ekki komið nóg af þessum til­hæfu­lausa hræðslu­á­róðri? Jarð­hræringar, inflúensa og RS-vírus eru ekki, og hafa aldrei verið, mál­efna­legar á­stæður til tak­mörkunar á at­hafna­frelsi al­mennings.“

Lífið er lotterí og það er hættu­legt að taka þátt í því. Það er þó hættu­minna vegna gríðar­legs fjölda bólu­settra, segir Hildur. „Þátt­taka í lífinu hefur alltaf verið hættu­spil, en stærsta að­steðjandi ógnin við líf og heilsu fólks er ekki far­sótt, nú þegar 90% full­orðinna hafa verið bólu­settir gegn kóróna­veirunni. Það er ó­mögu­legt að greina nokkurn á­vinning eða á­bata af á­fram­haldandi tak­mörkunum - hins vegar er miklu til kostað og mörgu fórnað.“

Hún bendir á að fjöldi at­vinnu­greina hafi borið mikinn skaða af í­þyngjandi tak­mörkunum: „Veitinga­menn, lista­menn og fjöl­margir aðrir hafa orðið fyrir ó­bætan­legu tjóni af völdum tak­markana sem þjóna ekki lengur al­manna­hags­munum. At­vinnu­rek­endur um alla borg berjast í bökkum vegna heima­til­búinna skil­yrða stjórn­valda, sem eiga sér ekki hlið­stæðu í ná­granna­löndum. Það er löngu tíma­bært að endur­heimta tak­marka­laust sam­fé­lag og eðli­legt líf.“

Hildur setur punktinn við færsluna, hikar hvergi og segir: „Af­léttingar strax.“