Sjálfstæðisflokkurinn kominn í fasteignabrask og styður þéttingu byggðar

Sjálfstæðismönnum í Reykjavík virðist hafa snúist hugur í lóðamálum. Hingað til hafa þeir gagnrýnt borgastjórnarmeirihlutann og borgarstjóra harðlega fyrir þéttingu byggðar og hafa fremur viljað láta ryðja ónumin lönd í útjaðri borgarlandsins fyrir nýja íbúabyggð en að fylla í ónýtta byggingarreiti miðsvæðis í borginni.
Í Fréttablaðinu í dag greinir frá því að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi heimilað byggingu fjögurra til sex hæða fjölbýlishúss á Háaleitisbraut 1. Handhafi leyfisins er lóðarhafinn, Sjálfstæðisflokkurinn. Á lóðinni standa einnig höfuðstöðvar flokksins, Valhöll. Í nýbyggingunni verða 47 íbúðir, auk atvinnurýmis í hluta jarðhæðar og bílakjallara.
Ekki ber á öðru en að Dagur borgarstjóri og hans fólk séu með þessu að gera hinn stórskulduga Sjálfstæðisflokk skuldlausan vegna þess að flokkurinn getur selt byggingarréttinn frá sér fyrir að minnsta kosti hálfan milljarð – sem er svipuð fjárhæð og heildarskuldir flokksins nema nú. Fremur er það kaldhæðnislegt.
Varla mun Sjálfstæðisflokkurinn ólmast áfram gegn þéttingu byggðar í borginni, þegar hann hefur skipað sér í raðir lóðaspekúlanta sem hagnast á fasteignabraski vegna þéttingar byggðar í Reykjavík.
Hér er um merka stefnubreytingu sjálfstæðismanna að ræða. Flokknum virðist farast það mun betur úr hendi að stunda fasteignabrask en að höfða til reykvískra kjósenda. Ef til vill ætti Sjálfstæðisflokkurinn að snúa sér meira að fasteignabraski. Braskið gengur að minnsta kosti mun betur en vonlaus barátta flokksins í minnihluta í borgarstjórn.
- Ólafur Arnarson