Sjáðu hvað hvert heimili tapar að meðal­tali vegna skorts á leik­skóla­plássi í borginni

Á sjöunda hundrað börn, 12 mánaða á eldri, bíða nú eftir leik­skóla­plássi í Reykja­vík. Biðin kostar hvert heimili að meðal­tali 3,9 milljónir króna í tapaðar launa­tekjur. Þetta kemur framí út­reikningum Við­skipta­ráðs.

Jóhannes Stefáns­son, lög­fræðingur Við­skipta­ráðs, vekur at­hygli á út­reikningunum og segir: „Ef þú átt barn eldra en eins árs á leik­­skóla­aldri í Reykja­­vík, hvað kostar það heimilið að annað for­eldrið geti ekki unnið þar til pláss losnar? Svarið er mis­­jafnt eftir heimilum, en að meðal­­tali eru það 3,9 m. kr. í tapaðar launa­­tekjur.“

Í frétt Við­skipta­ráðs segir að þann 3. mars sl. sam­þykkti borgar­ráð til­lögu borgar­stjóra um að öllum 12 mánaða börnum í Reykja­vík yrði tryggð leik­skóla­vist þann 1. septem­ber nk. Reykja­víkur­borg hefur um langt ára­bil stefnt að 12 mánaða inn­töku­aldri barna. Ljóst er að þau fyrir­heit munu ekki ganga eftir.

Þrátt fyrir að meðal­inn­ritunar­aldur í borginni hafi lækkað úr 27 mánuðum í 19 mánuði frá árinu 2017, sam­kvæmt skýrslu BSRB um um­önnunar­bilið, hafa for­eldrar barna á leik­skóla­aldri mót­mælt stöðu mála. Væntingum þeirra hefur því ekki verið full­nægt þrátt fyrir að staðan hafi batnað undan­farin ár. Hópur for­eldra efndi því til mót­mæla við fund borgar­ráðs þann 11. ágúst sl.

Sam­kvæmt frétt Ríkis­út­varpsins bíða 669 börn tólf mánaða og eldri eftir leik­skóla­plássi í Reykja­vík. Við­skipta­ráð hefur lagt mat á fjár­hags­legan fórnar­kostnað for­eldra af því að fá ekki leik­skóla­pláss í sam­ræmi við fyrr­nefnd lof­orð borgar­yfir­valda.

„...það þýðir að byrjað verður að taka á móti 12 mánaða börnum í leik­skóla borgarinnar í haust...“ – Úr bókun skóla- og frí­stunda­ráðs full­trúa meiri­hlutans i Reykja­vík á fundi ráðsins frá 8. mars sl.

Bið­lista­for­eldrar verða af 376 m. kr. í launa­tekjur á mánuði

Meðal­laun laun­þega á aldurs­bilinu 20 – 34 ára á landinu öllu voru kr. 562.321,- á mánuði á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Ef gert er ráð fyrir að bið eftir leik­skóla­dvöl geri það að verkum að annað for­eldrið sé utan vinnu­markaðar nemur fjár­hags­legur fórnar­kostnaður þessari upp­hæð fyrir hvern mánuð þar til barn fær leik­skóla­pláss. Fyrir allan hópinn tapast því sam­tals um 376 m. kr. í laun á mánuði eða 4,5 ma. kr. yfir tólf mánaða tíma­bil. Til saman­burðar nemur þessi fórnar­kostnaður fjórðungi af heildar­kostnaði við rekstur leik­skóla í Reykja­vík á ári. Í þessum saman­burði er ekki gert ráð fyrir at­vinnu­leysis­bótum úr ríkis­sjóði eða öðrum fjár­hags­stuðningi.

Ef litið er á fjölda vinnu­daga vinna Ís­lendingar á aldurs­bilinu 25 til 54 ára (gögn fyrir aldurs­bilið 20 til 34 ára ein­göngu eru ekki til­tæk) að meðal­tali 37,7 klst. á viku eða 150,8 klst. á mánuði. Miðað við 8 klst. vinnu­dag tapast því 18,9 vinnu­dagar á mann á mánuði eða 226,2 vinnu­dagar yfir árið. Ef litið er á hópinn í heild tapast 12.611 vinnu­dagar á mánuði eða 151.328 vinnu­dagar á ári.

Biðin kostar 3,9 milljónir á hvert barn

Til þess að meta fórnar­kostnað hvers heimilis er nær­tækast að líta til meðal­inn­töku­aldurs barna á leik­skóla í Reykja­vík og bera saman við stöðuna ef barn hefði fengið leik­skóla­pláss við 12 mánaða aldur. Þar sem börn fá að jafnaði leik­skóla­pláss við 19 mánaða aldur í Reykja­vík er fórnar­kostnaðurinn að meðal­tali laun í sjö mánuði hjá öðru for­eldri, eða rúmar 3,9 m. kr.