Sigurvegari prófkjörs sjálfstæðismanna

Hildur Björnsdóttir hafði betur í baráttunni um efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hún fékk stuðning 47 prósent þeirra sem tóku þátt í prófkjörinu. Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir hlaut annað sætið og getur ekki kvartað enda hlaut hún mikinn stuðning flokksmanna, en hún hefur einungis verið varaborgarfulltrúi til þessa en stekkur nú upp í annað sætið og er greinilega komin til að vera.

Raunverulegir sigurvegarar prófkjörsins eru hins vegar allir aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðismenn hafa styrkt meirihlutann í borginni og Dag B. Eggertsson borgarstjóra í sessi svo um munar.

Þær Hildur og Ragnhildur koma hvor úr sínum armi stríðandi fylkinga innan flokksins í Reykjavík. Hildur er í vinkvennahópi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur en Ragnhildur Alda var kosningastjóri hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni síðastliðið vor þegar hann bar sigurorð af Áslaugu Örnu og öllu flokkseigendafélagi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Í næstu sætum á eftir þeim tveimur koma Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og svo Björn Gíslason í fimmta sæti. Samkvæmt stórri skoðanakönnun sem Prósent vann fyrir Fréttablaðið, og birt var í gær, fengi flokkurinn fimm menn kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur. Ætla má að litið verði á sjötta sætið sem baráttusæti flokksins í kosningunum. Það sæti skipar Friðjón Friðjónsson.

Í þessum sex efstu sætum eru fjórir úr stuðningsmannaliði Guðlaugs Þórs og tveir úr liði Áslaugar Örnu. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig þessum hópi mun ganga að vinna saman en allt yfirstandandi kjörtímabil hefur borgarstjórnarhópur Sjálfstæðisflokksins verið þverklofinn. Annars vegar hafa verið Eyþór Arnalds og samherjar hans og hins vegar Hildur Björnsdóttir sem hefur tekið afstöðu með Degi borgarstjóra og meirihlutanum í mikilvægum málum eins og varðandi borgarlínu, flugvöllinn og Laugarveginn.

Niðurstaða prófkjörsins er nákvæmlega sú sem margir sjálfstæðismenn óttuðust. Mikil fúalykt er af listanum fyrir neðan efstu tvö sætin. Hildi Björnsdóttur varð ekki að þeirri ósk sinni að í efstu sæti kæmi ungt og nýtt fólk sem gæti tryggt flokknum frísklega kosningabaráttu og líflegt yfirbragð. Seint verður sagt að sú áferð fáist með Kjartani Magnússyni, Mörtu Guðjónsdóttur og Friðjóni Friðjónssyni í þremur af sex efstu sætunum.

Stuðningsmenn Hildar bundu vonir við að Frosti Logason fjölmiðlamaður gæfi kost á sér í annað sætið en hann hætti við á allra síðustu stundu af ástæðum sem nú eru upplýstar. Þá vildu stuðningsmenn Hildar helst losna við alla „gömlu“ borgarfulltrúana og fá í staðinn ungt og frambærilegt fólk. Þetta gekk engan veginn eftir.

Niðurstaða prófkjörsins veldur Sjálfstæðisflokknum enn meiri vanda í Reykjavík en hann hefur glímt við til þessa. Hefur sá vandi samt verið mikill enda hefur mátt halda því fram með góðum rökum að flokkurinn væri ekki stjórntækur vegna klofnings. Á því verða væntanlega engar breytingar núna – andstæðingum flokksins til mikillar ánægju. Þeir eru kampakátir í dag. Þessi listi er slíkur að Sjálfstæðisflokkurinn gæti eins kastað hvítu handklæði inn í hringinn nú þegar og játað sig sigraðan, horfst í augu við staðreyndir.

- Ólafur Arnarson