Sigurður Ingi hlýtur að verða næsti forsætisráðherra

Nú, þegar fyrir liggur að Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna, hljóta að verða mannaskipti í stjórnarráðinu. Við blasir að forsætisráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur er senn á enda og við tekur Sigurður Ingi Jóhannsson.
Úrslit kosninganna urðu nokkuð frábrugðin því sem skoðanakannanir gáfu til kynna í aðdraganda þeirra. Þrír flokkar bættu við sig fylgi og þingmönnum. Allir hinir töpuðu. Í stórum dráttum má segja að Framsókn hafi sigrað í baráttunni um miðjuna. Flokkurinn jók fylgi sitt úr 10,7 prósenum 2017 í 17,3 prósent nú. Þingflokkurinn fór úr átta í 13 manns. Viðreisn getur vel við unað, bætti við sig 1,6 prósenum og einum manni.
Á vinstri kantinum biðu Vinstri grænir afhroð, töpuðu 4,3 prósentum og þremur mönnum. Samfylkingin tapaði fylgi og manni á meðan Píratar héldu sínum sex mönnum þrátt fyrir fylgistap. Sigurvegarinn á vinstri kantinum er ótvírætt Flokkur fólksins sem bætti við sig 1,9 prósentum og tveimur mönnum frá síðustu kosningum. Sósíalistaflokkurinn reið ekki feitum hesti frá þessum kosningum og virðist helst geta státað sig af því að hafa með framboði sínu veikt vinstri væntinn í íslenskum stjórnmálum.
Hægri vængurinn tapaði. Miðflokkurinn tapaði rösklega helmingi fylgisins frá 2017 og rétt skreið inn á þing með þrjá menn í stað sjö þingmanna síðast. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut næst verstu útkomu sína frá upphafi, tapaði næstum prósenti en tókst að halda þingmannafjölda sínum.
Rökrétt niðurstaða kosninganna er að Sigurður Ingi Jóhannsson setjist í forsætisráðuneytið. Ríkisstjórnin hélt velli og jók raunar þingmeirihluta sinn. Sá aukni meirihluti er þrátt fyrir stórtap Vinstri grænna og fylgistap Sjálfstæðisflokksins. Stórsigur Framsóknar er eina ástæða þess að ríkisstjórnin missti ekki meirihluta sinn í gær. Fráleitt er annað en að Sigurður Ingi geri kröfu um forsætisráðuneytið fyrir sína hönd og flokks síns.
Haldi ríkisstjórnin áfram undir forsæti Sigurðar Inga má reikna með að einhverjar tilfærslur verði á ráðuneytum milli flokka. Ekki er fráleitt að Katrín Jakobsdóttir yrði utanríkisráðherra. Líklega vilja bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn losa heilbrigðisráðuneytið undan Vinstri grænum. Einhver hringekja færi í gang.
Kjósendur hafna verkum ráðherra Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins en Sigurður Ingi Jóhannsson þykir hafa staðið sig vel í samgönguráðuneytinu. Sama má segja um Ásmund Einar Daðason, sem hefur sannarlega tekið til hendinni í málefnum barna eftir að hann gerði þann málaflokk að sínum. Ásmundur Einar tók mikla pólitíska áhættu þegar hann færði sig úr öruggu vígi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem Framsókn átti ekki þingmann á síðasta kjörtímabili. Framsóknarflokkurinn bætti við sig tveimur mönnum á höfuðborgarsvæðinu í kosningunum í gær og fyrir vikið er ásýnd hans breiðari en þegar með sanni mátti segja að Framsókn væri dreifbýlisflokkur.
Áframhaldandi stjórnarsamstarf er aðeins einn þeirra kosta sem Framsókn getur valið á milli. Ljóst er að nokkrar þriggja flokka stjórnir eru mögulegar þótt þær séu misraunhæfar í stöðunni. Framsókn er með pálmann í höndunum og getur nokkurn veginn valið sér samstarfsflokka að vild.
- Ólafur Arnarson