Sigurborg svarar Ragnari: „Óábyrgt að draga upp úreldar hugmyndir um hraðbrautir“

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, hefur skrifað svar til Ragnars Árnasonar hagfræðings í sjö liðum. Í grein Ragnars í Morgunblaðinuí dag sagði hann að hagfræðileg áhrif Borgarlínu væru neikvæð, ólíkt niðurstöðu skýrslu COWI og Mannvits.

„1. Borgarlína er ekki „ráð Reykjavíkurborgar við þessum mikla umferðarvanda“. Hún er sameiginlegt húsnæðis- og samgönguverkefni Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Í samvinnu við ríkið,“ segir Sigurborg á Facebook.

Í öðru lagi sé ekki stuðst við „óraunsæjar forsendur um notkun borgarlínunnar“. Forsendurnar séu byggðar á reynslu annarra borga af samskonar hraðvagnakerfi.

„3. Ekki er reiknað út „óraunsætt þjóðhagslegt tímavirði þeirra sem nota borgarlínu“. Tímavirði er reiknað út frá viðurkenndum aðferðum. Stuðst er við módel er nefnist The Danish Value of Time Study, sem hefur verið yfirfært í íslenskt umhverfi,“ segir Sigurborg.

„4. Það eru ekki „allmargar framkvæmdir í samgöngumálum sem bæði hafa verulega jákvætt núvirði og tvímælalaust miklu hærra en Borgarínan“. Borgarlína er eina framkvæmdin sem hefur farið í félagshagfræðilega greiningu. Það er óábyrgt að draga upp úreldar hugmyndir um hraðbrautir og gríðarstór mislæg gatnamót þegar þau munu auka svifryk, auka losun gróðurhúsaloftegunda, auka umferðarhávaða og að lokum auka umferðartafir um allt höfuðborgarsvæðið.“

Í fimmta lagi þá sé Borgarlínan sú framkvæmd sem mestan ábata hefur þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu og samgöngulausnum fyrir framtíðina, hvort sem horft er til þjóðhagslegrar hagkvæmni eða umhverfislegrar.

„6. Vandamálið sem við glímum við í dag er að við þurfum að gera margfalt betur í að draga úr bílaumferð og minnka losun gróðurhúslofttegunda frá henni. Fækka bensín/díselbílum og minnka akstur þeirra. Margfalt á við það sem eru verið að gera í dag. Öðruvísi stöndumst við ekki Parísarsáttmálann,“ segir Sigurborg.

„7. Hagfræðiprófessor sem taldi óskynsamlegt að vera aðili að Kyoto-bókuninni, vegna þess að gróðurhúsaáhrif væru góð fyrir sjávarútveginn á Íslandi, er ekki líklegur til að átta sig á því að loftslagsbreytingar geta gert plánetuna okkar ólífvænlega á næstu 100 árum. Breytingarnar eru að gerast hraðar en spáð var fyrir og þróunin mun koma verst niður á þeim sem á eftir honum koma.“

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, bætir við einu atriði í viðbót og segir Ragnar fara meðrangt mál þegar hann talar um 4% hlutfall ferða með Strætó. „Í staðinn heldur hann fram að það séu aðeins 4% borgarbúa sem noti Strætó,“ segir Guðmundur.

„Þessi 4% tala sem gjarnan er vitnað í er hlutfall ferða með Strætó skv. ferðavenjukönnun SSH. Hlutfall ferða er ekki það sama og hlutfall borgarbúa. Skv. könnun Zenter frá apríl 2019, þá nota 16% borgarbúa Strætó að minnsta kosti einu sinni í viku.