Sigrún lenti í óhugnanlegu atviki í London: „Nokkrum mínútum eftir það dett ég út“

„Hann kveikir á vasaljósinu á símanum og bara „Guð minn góður“ og nokkrum mínútum eftir það dett ég út,“ segir tónlistarkonan Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths í samtali við Suðurnesjamagasín sem verður sýnt á Hringbraut í kvöld.

Sigrún fékk hita og beinverki á miðvikudegi í mars 2020. Aðeins fimm dögum síðar var hún komin á sjúkrahús, mikið veik af völdum Covid-19.

Sigrún var á þessum tíma búsett í þriggja hæða húsi í úthverfi London og fann hvernig öndunarvegurinn lokaðist þegar hún gekk frá neðstu upp að efstu hæð.

„Ég er að bursta tennurnar þegar ég sé að ég er að verða fjólublá í kringum varirnar,“ lýsir Sigrún. Hún fór þá inn í stofuna til mannsins sín og spurði hvort þetta væri rétt, að hún væri að verða blá á vörunum.

„Hann kveikir á vasaljósinu á símanum og bara „Guð minn góður“ og nokkrum mínútum eftir það dett ég út.“ Eiginmaður hennar var snöggur til og hringdi í sjúkrabíl en þurfti að bíða heillengi í símanum á bið.

„Það var algjört kaos í London á þessum tíma. Þetta var í lok mars 2020 þegar veiran var í hámarki,“ segir Sigrún meðal annars en þátturinn er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 19:30. Þátturinn er svo endursýndur klukkan 21:30.