Sigríður útskýrir hvers vegna hún setti „læk“ við færslu Loga

Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hefur útskýrt hvers vegna hún setti „læk“ við færslu fjölmiðlamannsins Loga Bergmanns Eiðssonar í gærkvöldi.

Málið hefur valdið talsverðu fjaðrafoki í Facebook-hópi FKA þar sem Sigríður hefur verið gagnrýnd fyrir stuðning við Loga. Hann var sem kunnugt er í hópi þeirra sem sakaðir voru um að hafa farið yfir mörk af Vítalíu Lazareva í hlaðvarpsþættinum Eigin konur á dögunum.

Sigríður hefur nú útskýrt sína hlið á málinu á Facebook-síðu sinni og segir:

„Merkingarbær þumall - mér varð það á í gær að setja like á færslu Loga Bergmann. Tók hann af um leið og mér var bent á hversu merkingarbær þumallinn getur verið. Þumall fyrir mér er ekki samþykki öllum stundum, heldur "ég heyri hvað þú segir".“

Sigríður segir að fyrir henni sé tjáningafrelsi okkar mikilvægt og grunnmannréttindi - líka þeirra radda sem eru okkur erfiðar eða við erum hreinlega ekki sammála.

„Ég á alveg FB "vini" sem falla í þann flokk. Svo er ég bullandi mannleg og oft hvatvís.

EN - sem þolandi kynferðisofbeldis sjálf þá er hugur minn og 100% stuðningur hjá þolendum og fjölskyldum. Það er vegferð okkar sem samfélags að læra góð samskipti og hegðun og AF-læra þöggunar- og ofbeldismenningu. Verum samfélagið sem við viljum búa í,“ segir hún meðal annars.