Sigríður setur spurningamerki við hertu reglurnar: „Kynnum aldrei hver á að borga“

Sóttvarnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa litið dagsins ljós. Almennar samkomutakmarkanir fara í tíu úr tutttugu. Skólar halda áfram að vinna samkvæmt reglugerð. Skemmtistöðum verður lokað og spilasölum auk þess sem að viðburðir með hraðprófum verða ekki heimilaðir lengur.

Sundstaðir og líkamsrækt verða opnir en þó aðeins með heimild um 50 prósenta leyfilegan fjölda. Þetta gildir til 2. febrúar og tekur gildi á miðnætti í kvöld.

Sigríður Andersen, fyrrverandi ráðherra, gerir athugasemd við þetta á Twitter þar sem hún vísar í stöðuna á Covid-göngudeild Landspítala:

„Rauðmerktir (líkur á innlögn) á göngudeild = 0. Gulir (símtal og möguleg skoðun á innlögn) = 189,“ segir hún.

„Ríkisstjórnin = Auknar takmarkanir á frelsi fólks með reglugerð. Kynnum síðar tillögur um skaðabætur. Kynnum aldrei hver á að borga.“

Margir taka undir þetta sjónarmið hennar.

Það eru fleiri en hún sem setja spurningamerki við aðgerðirnar, þar á meðal Konráð Guðjónsson hagfræðingur sem segir:

„Ef það virkar að herða takmarkanir enn frekar, hvers vegna eru þá 100+ delta smit á dag, eða svipað mörg og þau voru áður en takmarkanir voru verulega hertar í desember?“

Var honum bent á að smitin gætu mögulega verið fleiri ef ekki hafi verið takmarkanir:

„Bíddu nú við, voru þau ekki í næstum 2 vikna jólafríi og er skólahald ekki búið að vera mjög laskað síðan rétt fyrir jól? Og ekki eru það börn sem eru að viðhalda frekar svipuðum fjölda inniliggjandi delta smitaðra?“