Sigmundur kemur fánum lögreglunnar til varnar: Norræni krossfáninn langflottastur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, birti grein á Vísi í gær þar sem hann kemur lögreglunni til varnar eftir fánamálið svokallaða. Í vikunni kom í ljós að einhver hluti lögreglumanna hefur borið fána á innanávestum sínum, í einhverjum tilfellum voru fánarnir merki nýnasistahreyfingar.

„Enn er haldið áfram að hamast í lögreglunni vegna hátt í þriggja ára gamallar myndar af merkjum á lögreglubúningi. Eins og ég hef getið um áður finnst mér að það eigi ekki að vera önnur merki á lögreglubúningum en þau sem tilheyra lögreglunni. Sú er þegar orðin raunin. Hins vegar snýst hamagangurinn um allt annað. Hann snýst um að ná höggstað á lögreglunni og níðast á einstaklingum og í sumum tilvikum heilli starfsstétt,“ skrifar Sigmundur.

„Nú hefur verið fenginn „algjörlega óháður og ópólitískur sérfræðingur“ til að segja fólki hvernig beri að túlka merkin sem sást glitta í á ljósmyndinni. Þá er litið fram hjá uppruna merkjanna og því sem lá að baki hjá þeim sem notaði þau. Utanaðkomandi sérfræðingur ákveður hvað merkin tákni og útskýrir hugarfar fólks sem notar þau án þess að hafa nokkurn tímann talað við viðkomandi.“

Sigmundur segist þá sjálfur hafa lent í „utanaðkomandi sérfræðingum“ á sviði tákna þegar hann stakk upp á því fyrir nærri áratug síðan að merki þingsins yrði rísandi sól í fánalitunum:

„Sérfræðingur úr annarri átt stjórnmálanna tók að sér að útskýra (sem „óháður fræðimaður“) að þetta væri klassískt fasískt tákn. Hefði sérfræðingurinn haft hugmynd um hvað hann var að tala hefði hann vitað að rísandi sól er þvert á móti þekkt og gamalt tákn vinstrihreyfinga víða um heim („sjá roðann í austri“ og allt það) og verkalýðshreyfinga. Hann hefði þá getað gagnrýnt okkur fyrir það. Með merkinu var hins vegar vísað til þess að rísandi sól hefur líka verið tákn íslensku ungmennafélaganna, framfara og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en það vissi sérfræðingurinn ekki heldur. Hann sá bara það sem hann langaði að sjá og það sem þjónaði áhuga hans á að sverta pólitíska andstæðinga.“

Hann heldur áfram:

„Nú sætir lögreglukona viðvarandi svívirðingum og jafnvel lögreglan öll m.a. vegna fána sem hannaður var af íslensk ættuðum forsprakka rokkhljómsveitar og hefur verið notaður af fjölmörgum hópum sem tákn um marga ólíka hluti.

Byrjað var á svo kölluðum Vínlandsfána sem hefur verið notaður af ýmsu tilefni. Eða var þetta norskur herfáni? Eða e.t.v. fáni frændfólks okkar í Suðureyjum þ.e. íbúanna á Suðvesturey eða Suður Vist (South Uist)? Eyju sem er skammt suður af Grímsey í Suðureyjum (ef það hjálpar).

Norræni krossfáninn tekur á sig ýmsar myndir og er notaður víða um heim (enda langflottustu fánarnir). Við verðum bara að vona að eitthvað vafasamt fólk taki ekki upp á því að nota íslenska fánann. Hvað gera ybbar þá?“

Sigmundur spyr sig þá hvort eitthvað athugavert sé við það að lögreglumenn vilji bera hinn svokallaða „Thin Blue Line“ fána: „Eftir að menn höfðu skammast yfir Vínlands-/Suðureyjafánanum var athyglinni beint að merki hinnar fínu bláu línu (e. thin blue line) og því meðal annars haldið fram að það sé svar við BLM hreyfingunni. Þá mætti spyrja hvort það sé óeðlilegt að lögreglan sýni samstöðu gagnvart hreyfingu sem hefur það að meginmarkmiði að leggja niður löggæslu? Margir forsprakkar BLM hafa talað um lögreglu með hætti sem ég treysti mér ekki til að hafa eftir en orðið „hatursorðræða“ á sannarlega við.“