Sigmundur Davíð um fjöldarhjálparmiðstöðina: „Nú er verið að opna flóttamannabúðir á Íslandi“

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins lýst ekki vel á nýja fjöldahjálparmiðstöð sem opnuð var í Borgartúni í dag ef marka má orð hans í Facebook færslu sem hann birti á síðu sinni fyrr í kvöld.

Sigmundur skrifar þar: „Nú er verið að opna flóttamannabúðir á Íslandi. Að vísu kallaðar „fjöldahjálparmiðstöð” vegna þess að þetta eigi bara að vera tímabundið úrræði í nokkra daga (hver trúir því?),“ skrifar Sigmundur Davíð á síðu sinni en hann segir það undarlegt að verið sé að opna miðstöðina stuttu eftir að ákveðið hafi verið að ekki yrði ráðist í slíkt verkefni hér á landi.

„Þetta kemur tveimur vikum eftir að fullyrt var að ekki ætti að koma til þess (eftir að ríkislögreglustjóri lýsti yfir hættuástandi á landamærunum) og mörgum árum eftir að ljóst varð í hvað stefndi.“

Sigmundur Davíð segir að þingmenn miðflokksins „hafa verið einir um að vara við þróuninni og fengið bágt fyrir að benda á að vegna stefnu stjórnvalda hafi hælisumsóknir á Íslandi hlutfallslega orðið margfalt fleiri en á öðrum Norðurlöndum,“

Sigmundur segir það agalegt að Ísland hafi verið auglýst sem opinn áfangastaður fyrir þá sem skipuleggja fólksflutninga hingað til lands og telur þetta aðeins trufla þann stuðning sem Ísland ætti að sýna þeim sem flýja stríðið í Úkraínu.

„Við höfum bent á að þessi þróun myndi aðeins ágerast ef ekki yrði brugðist við og það myndi gera okkur erfiðara fyrir við að aðstoða Úkraínumenn á flótta undan stríðinu. Viðbrögð stjórnvalda voru þau að troða í gegn frumvarpi sem auglýsti Ísland rækilega sem áfangastað fyrir þá sem skipuleggja fólksflutninga,“ skrifar Sigmundur Davíð

Hann segir þetta allt saman hafa verið fyrirsjánlegt og að nú sé „stjórnleysi ríkisstjórnarinnar í málaflokknum orðið algjört.“