Sigmar skilur ekkert í Sjálfstæðismönnum sem kvarta undan sóttvörnum: „Fullkomlega ómeðvitaðir um að þeir eru við völd“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, skilur ekkert hvers vegna þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins kvarta sáran yfir sóttvarnaraðgerðum þegar þeir sjálfir sitja við ríkisstjórnarborðið. „Alls 12 af 17 þingmönnum flokksins styðja í raun ekki ríkisstjórnina í þessum málum og þar af eru þrír ráðherrar. Þetta er alveg magnað,“ segir hann í grein á vef Vísis.

„Varaþingmaður flokksins í Suðurvesturkjördæmi leiðir skrúðgönguna og krefst afsagnar sóttvarnarlæknis á milli þess sem hann reynir að koma í veg fyrir að börn verði bólusett.“

Hann segir þá tala og tala en ekki gera neitt: „Þessir 12 þingmenn, og þar af þrír ráðherrar, hafa raunveruleg völd. En þeir kjósa að beita því valdi ekki. Hvorki við ríkisstjórnarborðið, né sem þingflokkur,“ segir Sigmar.

„Einn af öðrum týnast þessir 12 þingmenn upp í ræðupúlt Alþingis, fullkomlega ómeðvitaðir um að þeir eru við völd, til þess eins að vera skotnir niður af samstarfsflokkunum.“

Vísar hann svo í Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingmann VG sem sakaði þá um upphrópanir í þinginu í vikunni og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sem sagði að samráðherrarnir úr Sjálfstæðisflokknum „rugli umræðuna og grafi undan þeim aðgerðum“ sem gripið er til í sóttvarnarskyni.

Sjálfur segir Sigmar takmarkanirnar harðar: „Skilin á milli frelsis og takmarkana eru á öðrum stað í dag en fyrir fáeinum vikum, það hlýtur að blasa við okkur öllum þegar tölfræðin er skoðuð. En að Sjálfstæðisflokkurinn hafi engin raunveruleg áhrif sem varða frelsi einstaklingsins er auðvitað í hrópandi andstöðu við hans helstu hugsjónir.“