Sif greinir fyrstu daga Truss: "Breskur almenningur er staddur á sökkvandi farþegaferju"

Pistlahöfundurinn Sif Sigmars gerði sér mat úr fyrstu dögum Liz Truss, hins nýja forsætisráðherra Bretlands, í pistli sínum sem birtist í Fréttablaðinu í gær.

Þar fór hún yfir þær væntingar sem Bretar hafa til hins nýja forsætisráðherra en Sif býr sjálf í London og stendur því málefnið henni nærri.

Eða eins og hún sjálf segir: „Ég heilsa ykkur, kæru lesendur, af sökkvandi skipi. Skipið er breskt efnahagslíf en gatið á skrokknum braut skipstjórinn sjálfur.“

Truss tók við embætti sínu eftir að Boris Johnson hrökklaðist úr því eins og frægt er orðið og var kjör hennar ákveðið innan vébanda íhaldsmanna. Sif tekur það fram að „Væntingar til æðsta ráðamanns hafa sjaldan verið jafnlitlar. Í kjölfar kjörs Truss sögðust aðeins 22 prósent Breta ánægð með hinn nýja leiðtoga. En þrátt fyrir litlar væntingar tókst Truss að valda stórbrotnum vonbrigðum,“ segir hún.

Vonbrigðin koma í kjölfar þess hversu fyrirsjáanlegar afleiðingar það hefur haft að Truss skildi ná kjöri en hennar eina vopn gegn vandræðum Bretlands virðist vera að lækka skatta og þá helst fyrir þá sem síst þurfa á því að halda. Eða eins og Sif segir:

Matarbankar anna ekki eftirspurn: Liz hyggst leggja niður auðlegðarskatt. Verðbólga hefur ekki verið hærri í Bretlandi í fjörutíu ár og seðlabankinn hækkar stýrivexti í von um að draga úr neyslu: Liz hyggst lækka almennan tekjuskatt til að auka neyslu. Heilbrigðiskerfið er fjársvelt: Liz hyggst lækka almannatryggingagjaldið,“ segir hún og tekur einnig fram.

„Vika er frá því að ríkisstjórn Liz Truss kynnti efnahagsaðgerðir sínar. Síðan þá hefur gengi pundsins hrunið og skuldabréfamarkaðurinn farið á hliðina. Það hriktir í stoðum lífeyrissjóða. Seðlabankinn greip til neyðaraðgerða og hótar enn frekari vaxtahækkunum. Almenningur sér fram á að geta ekki borgað af húsnæðislánum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir Bretland ógna hagkerfi heimsins.“

Þá tekur hún dæmi úr Íslenskum veruleika þar sem hún segir þetta viðlíkt því að Heimdellingum væru réttir stjórnartaumar heils lands en nýfrjálshyggja Truss virðist henni alls ekki að skapi:

„Munið þið eftir guttunum sem gengu um vatnsgreiddir í jakkafötum á menntaskólaárunum með heildarútgáfu Milton Friedman í skjalatöskunni og Ayn Rand á náttborðinu, svo fallega öruggir í þeirri vissu að sama hvers væri spurt væri svarið alltaf frelsi, skattalækkun eða afnám hafta? Ég hef stundum velt fyrir mér hvað gerðist ef Heimdellingum yrðu afhentir stjórnartaumar heils lands. Nú vitum við svarið: Þetta. Nákvæmlega þetta.“