Sendir lögreglustjóra opið bréf eftir ákæru: „Ég var að reyna að breyta samfélaginu til hins betra“

Kári Orrason, rúmlega tvítugur Reykvíkingur, hefur verið ákærður fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu í anddyri dómsmálaráðuneytisins í apríl í fyrra þar sem hann, ásamt félögum sínum í samtökunum No-Borders, krafðist fundar með ráðherra um aðbúnað flóttamanna á landinu.

Hann skrifaði opið bréf til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, nýs lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í Fréttablaðinu í morgun. Hér má lesa bréfið í heild sinni:

Til Höllu Bergþóru Björnsdóttur

Kæra Halla

Mér fannst ég sjá þig um daginn, þarna á Black Lives Matter mótmælunum fyrstu vikuna í júní, en ég er ekki viss. Sá bara ljósa hárlokka gægjast undan skjannahvítri húfu með svörtu deri, gylltum borðum og stjörnu sem skein bjartar en sólin: MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA. Ég ætlaði að koma upp að þér og heilsa, en guggnaði. Þú varst þarna með einhverjum öðrum, og æ, satt best að segja fannst mér þið örlítið ógnandi. Svo hefði líka verið ótrúlega vandræðalegt ef þetta hefði ekki verið þú. En já, þú veist hvað ég er að tala um, mótmælin eða samstöðufundinn, eða hvað maður á að kalla þetta þarna um daginn. Líklega bara best að láta þig sjá um svona skilgreiningar. En ég man svo vel eftir þessu, hvort sem ég sá þig eða ekki, standandi þarna í mannmergðinni á Austurvelli að sýna þessari ótrúlegu hreyfingu, sem hefur gagntekið Bandaríkin, stuðning. Ég stóð þarna við hlið þúsunda Íslendinga, þér meðtalinni - mögulega - og hlustaði á svarta ræðumenn, heyrði raddir þeirra og reynslusögur. Þetta var svo ótrúlega fallegt að sjá, fannst þér það ekki? Ég fann fyrir einhverjum yl sem náði alveg inn að hjartarótum. Yl, sem ég hef ekki fundið fyrir síðan í fyrra, einnig á Austurvelli, þegar ég var staddur á mótmælum eða samstöðufundi, eða hvað maður á að kalla þetta, með flóttafólki á Íslandi. Líklega bara best að láta þig sjá um svona skilgreiningar.

Ylurinn þarna í byrjun júnímánaðar entist því miður ekki lengi. Hann fékk mig til að hugsa til baka til hreyfingarinnar í fyrra. Þegar ég, ásamt mörgum öðrum, lagði tíma og orku mánuðum saman í það að styðja við kröfur flóttafólks á Íslandi. Þegar ég þagði og hlustaði á sögur fólks á flótta í fyrsta skipti, heyrði raddir þeirra og reynslusögur nótt eftir nótt í kuldanum á Austurvelli og reyndi að koma þeim á framfæri, dag eftir dag. Ég man svo vel eftir þessum vetrarnóttum á Austurvelli; að nudda saman höndum, að sitja með tærnar við ljósin í stéttinni og breiða yfir þær teppi til að reyna að fanga hitann sem reis upp, að standa upp til að hrista kroppinn, hoppa á staðnum og labba hring eftir hring til að reyna að fá blóðið til að renna. Ég man eftir að hafa horft á Alþingishúsið dauflega upplýst - eða var það kannski almyrkt? - á þessum nóttum, og velt fyrir mér hvernig það væri þarna inni, hvort tómu salirnir væru upphitaðir, hlýir, eða hvort þessi kuldi ætti kannski uppruna sinn þar, hvort hann læddist eftir auðum göngunum og smygi út um glufur hússins, út á torg, út til okkar.

En svo horfði ég í kring um mig og sá fólk vera að spjalla, deila sígarettum, sögum, öllu sem það átti, brosandi og vongott, þrátt fyrir allt saman. Ég horfði á vini mína sem hafa alist upp á Íslandi í algjörri forréttinda-„búblu“ sitja og hlusta á fólk með gjörólíka upplifun af heiminum. Þá fann ég loksins fyrir hlýju innra með mér, þrátt fyrir nístandi kuldann; ég fann fyrir þessum sama yl og ég fann fyrir þarna um daginn, með þér. Þessi ylur entist samt aldrei lengi, hann kom og fór eins og sólskin gegnum smugur á skýjuðum himni. Hann kom með leikskólakennurum á lágmarkslaunum sem gáfu okkur föt, mat og teppi, en fór með miðaldra mönnum í jakkafötum sem komu af barnum til að segja „þurfum við ekki að hugsa um okkar fólk fyrst?“ Hann kom með fólkinu sem söng með okkur baráttusöngva fyrir framan Alþingishúsið, en var barinn burt með lögreglukylfum og piparúða. Hann kom í hvert sinn sem ég sá von og hlýju í augunum á þessu yndislega fólki sem ég var að kynnast; fólki sem hafði árum saman leitað sér að stað þar sem það gæti fengið að lifa í öryggi, en fór í hvert sinn sem það var handtekið um miðja nótt og hent út í óvissuna fyrirvaralaust, með næsta flugi Icelandair, án þess að fá mál sitt almennilega skoðað. Án þess að fá að kveðja. Ylurinn breyttist í reiði, sorg, þreytu, pirring og vonleysi á hverjum degi. En vonin kom aftur, þó alltaf liði lengra og lengra á milli, þó hún minnkaði með hverri brottvísun, þá kom hún aftur og hélt okkur gangandi mánuðum saman. Að lokum varð hún svo agnarsmá og sjaldséð að ég hætti að taka eftir henni.

Ég veit þú varst ekki komin í bæinn þegar þetta var allt að gerast og kannski bárust þessar fréttir ekki til Norðurlands Eystra, en mig langaði að deila þessu með þér. Hefurðu einhvern tímann fundið fyrir einhverju svona? Fannstu fyrir einhverjum yl þarna á Austurvelli í byrjun júní? Einhver sagði mér, eftir mótmælin eða samstöðufundinn, eða hvað maður á að kalla þetta, að þessi hreyfing hafi skapað umtalsverða umræðu í Bandaríkjunum um kerfisbundinn rasisma, lögregluvald og hvernig eigi að breyta til og búa til samfélag sem hentar sem flestum. Nokkur ríki eru meira að segja byrjuð að gera breytingar, til dæmis með því að leggja meiri áherslu á félagsþjónustu og forvarnir, í staðinn fyrir löggæslu og refsingu. Mér finnst alveg ótrúlegt hvað þetta hefur haft mikil áhrif og ég fór að velta fyrir mér hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað svipað hérlendis, þar sem stuðningurinn við hreyfinguna virðist vera svo mikill. Skapa einhvern farveg þar sem jaðarsettir hópar sem hafa verið undirokaðir árum saman fá að tjá sig, við hin förum loksins að hlusta svo við getum byggt kerfi sem hentar sem flestum.

Ég veit ekki, fór allavega að hugsa um þetta eftir mótmælin, hvað væri gaman að eiga þessar samræður við þig, fyrst mér fannst ég sjá þig þarna á Austurvelli að sýna hreyfingunni stuðning. Þætti þér ekki frábært ef meiri áhersla væri lögð á heilbrigðiskerfi, húsnæði og menntun handa öllum? Ef við myndum byggja samfélag þar sem allir fengju að taka þátt, í stað þess að refsa þeim sem passa ekki fullkomlega inn? Ef fólk menntað í skaðaminnkun myndi sinna fólki með fíknisjúkdóma, í stað þess að lögreglan mæti á svæðið? Ef fólk án pappíra myndi fá hjálp við að finna sér stað í samfélaginu, í stað þess að vera elt af tíu tonna sporhundi á hjólum? Ef þess væri gætt að friðsamleg mótmæli fengju að eiga sér stað í friði, í stað þess að mæta þeim með ofbeldi? Ég var satt best að segja orðinn ansi vongóður varðandi þessa nýju stöðu þína. Fannst alveg frábært að einhver sem væri svona víðsýn og góðhjörtuð hefði tekið við embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um það bil viku seinna kom bréfið frá þér inn um lúguna. Ákæra fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Ég verð að segja að það kom mér svolítið á óvart, því mér fannst ég hafa séð þig þarna á Austurvelli að sýna stuðning við hreyfingu sem snýst um að hlusta á raddir sem hafa verið bældar alltof lengi, hreyfingu sem snýst um það að reyna að breyta kerfinu svo þeir sem hafa verið kerfisbundið kúgaðir fái loks réttlæti, fái að lifa við öryggi. Því þetta var það sem ég var að reyna að gera þegar ég var handtekinn við friðsamleg mótmæli í Dómsmálaráðuneytinu í fyrra. Ég var að nýta rétt minn til mótmæla og stuðla að því að fólk í erfiðri og viðkvæmri stöðu gæti komið sínu fram. Ég var að reyna að breyta samfélaginu til hins betra. Er það ekki borgaraleg skylda okkar allra? Æ, ég var bara einhvern veginn búinn að fá þá flugu í höfuðið að þú myndir skilja. Því mér fannst eins og ég hefði séð þig þarna á Austurvelli að sýna samstöðu. En kannski var þetta einhver önnur.

Kær kveðja,

Kári