Katrín hefur svikið kjósendur með því að lúta stefnu sjálfstæðisflokksins

Tónlistarkennarinn Gunnar Waage spyr Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hvort hún telji sér til setunnar boðið í embætti, ætli hún sér að halda áfram að lúta stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum flóttafólks. Hann segir í því felast svik við kjósendur, í opnu bréfi til Katrínar, sem birtist á vef Fréttablaðsins.

Í pistlinum segist Gunnar hafa unnið að úttekt á stefnu allra framboðslista fyrir alþingiskoningar í málefnum hælisleitenda. Þar segist Gunnar hafa gefið VG fullt hús stiga fyrir stefnu sína.

„En nú er komið að vissum reikningsskilum Katrín. Þú sendir mér samþykktir Vinstri Hreyfingarinnar Græns Framboðs, þar sem birtist umbótastefna ykkar framboðs á þessu sviði sem var til hreinnar fyrirmyndar. Til stóð að hreinsa til í málefnum flóttafólks og hælisleitenda, taka við stórauknum fjölda flóttafólks og hælisleitenda o.s.frv.“

Nefndin lúti fullkomnu valdi ráðherra

Gunnar segir að til að gera langa sögu stutta hafi ekkert í loforðum VG í málefnum hælisleitenda orðið að veruleika í stjórnartíð Katrínar. Gunnar segir það hafa komið sér verulega á óvart. Hann segir ljóst að ekkert gerist í Kærunefnd Útlendingamála sem ekki hugnist ráðherra, nefndin lúti fullkomnu valdi hans.

„Sem sagt Katrín, þá gerist ekkert í Kærunefndinni sem ráðherra hugnast ekki. Niðurstaða nefndarinnar er því pólitísk og endurspeglar fyrst og fremst pólitískan vilja á alþingi.“

Gunnar fullyrðir að Útlendingastofnun brjóti Dyflinnarreglugerðina svokölluðu, sem ætlað sé að vernda flóttafólk.

„En í hvert skipti sem forsvarsmenn útlendingamála svara fyrir enn eina óforsvaranlega brottvísunina, þá er vísað í reglugerðina. Staðgengill forstjóra ÚTL er Þorsteinn Gunnarsson og fyrir þeim er ekki þekkja til málaflokksins, má vera að tilsvör hans séu bara nokkuð sannfærandi.

En Útlendingastofnun, augljóslega samkvæmt vilja ráðherra og þingmeirihlutans, brýtur Dyflinarreglugerðina í stað þess að starfa samkvæmt þeim skyldum sem regluverkið leggur á herðar stjórnvalda í þeim tilgangi að vernda flóttafólk.“

Langt í frá að VG geti skreytt sig með málaflokknum

Gunnar segir ljóst að í umboði ríkisstjórnar Katrínar sé Flóttamannasamningur SÞ, Barnasáttmálinn og Dyflinarreglugerðin þverbrotin og gengur hann svo langt að segja þau fótum troðin.

Hann segir að það sé staðreynd að þegjandi samkomulag hafi ríkt um málaflokkinn meðal allra flokka á Alþingi. Langt sé frá að VG geti skreytt sig með þessum málaflokki í aðdraganda kosninga, vísað í metnaðarfullar samþykktir flokksins og gleymt svo öllu eftir ksningar.

„Ég vil spyrja þig Katrín hvort þú teljir þér til setunar boðið, ef þú ætlar að halda áfram að lúta stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum flóttafólks, því í því felast svik við kjósendur,“ segir Gunnar. Hann biður Katrínar um að minnast þess að hann hafi gefið VG fullt hús stiga fyrir loforð sín í málaflokknum.

„Nú þegar til stendur að vísa á brott ungum Trans dreng yfir í afar ótryggar aðstæður sem Nota bene er skýlaust brot á Dyflinarreglunni, Flóttamannasamningi Sameinuðu Þjóðanna og sjálfum Barnasáttmálanum, þá vona ég að þú hugleiðir fyrst þessi orð mín sem ég sendi þér í mestu vinsemd.“