Samstarfsmenn minnast Jóns Ólafs: 23 ára var hann orðinn metnaðarfullur vísindamaður

Jón Ólafur Skarphéðinsson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag. Jón Ólafur lést þann 11. febrúar síðastliðinn á 65. aldursári.

Fjölmargir minnast Jóns Ólafs í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag, þar á meðal eru samstarfsmenn hans hjá Háskóla Íslands.

Jón Ólafur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1976 og BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Samhliða námi stundaði hann rannsóknir og kennslu lífeðlisfræði við Háskóla Íslands. Árið 1983 hóf hann doktorsnám í Svíþjóð og varði hann ritgerð sína við Gautaborgarháskóla árið 1988. Hann var svo ráðinn lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sama ár en frá 1995 starfaði hann sem prófessor í lífeðlisfræði og kenndi við flestar deildir heilbrigðisvísindasviðs.

Torfi H. Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands og góður vinur Jóns Ólafs, fer hlýjum orðum um Jón í grein sinni í Morgunblaðinu í dag.

„Jónsi var glæsilegur maður, hávaxinn og herðabreiður, nefmikill með falleg brún augu. Þau lýstu af greind og festu. Á góðum stundum geisluðu þau af gleði og kærleika,“ segir Torfi en þeir kynntust á síðasta ári sínu í menntaskóla og urðu strax góðir vinir. Þeir leigðu saman á námsárunum eftir stúdentsprófið og tilheyrðu sama sterka vinahópnum. Þeir leigðu svo aftur saman eftir að Jón kláraði háskólanám sitt hér á landi.

„Þá var Jónsi útskrifaður, farinn að vinna við rannsóknir og kenna við háskólann. Hann var þegar orðinn metnaðarfullur vísindamaður, ekki nema tuttugu og þriggja ára. Við hin vorum að fást við ólíka hluti, en nutum þess að hlusta á Jónsa segja frá rannsóknunum sem hann tók þátt í, meðal annars á margvíslegum undrum sléttra vöðva,“ segir Þór sem rifjar upp skemmtilegt atvik.

„Einhvern tímann þennan vetur tók hann heim með sér af tilraunastofunni tvær hvítar mýs sem urðu þar með hluti af heimilisfólkinu. Hann hafði gaman af þessum dýrum og það var eftirminnilegt hvað hann umgekkst þau af mikilli virðingu og væntumþykju.“

Guðrún Pétursdóttir, samstarfskona Jóns Ólafs, skrifar einnig um hann í Morgunblaðinu í dag. „Við vorum hluti af Grensásvegargenginu, ungum lífeðlisfræðingum sem gengu óhikað hver í annars störf við rannsóknir og kennslu á Rannsóknarstofu HÍ í lífeðlisfræði.“

Hún rifjar upp að á þessum tíma hafi engin föst stöðugildi verið að hafa og þau því verið stundakennarar í meira en fullu starfi.

„Þarna tókum við Jónsi okkar fyrstu skref sem kennarar, ýmist í fyrirlestrum eða endalausum verklegum æfingum um tilbrigði raflífeðlisfræðinnar. Þessar æfingar gátu staðið í 10 tíma, enda minnast fornir nemendur þeirra enn. Það þurfti oft að leysa úr tæknilegum bráðavanda, eða hjálpast að við að finna skýringu á undarlegri útkomu, áratugum fyrir tíma gúglsins. Við svona aðstæður myndast traust og væntumþykja sem endast ævina út,“ segir hún og bætir við að hann hafi verið einhver alhjálpsamasti vinur sem hún hefur átt.

„Það var sama hvað ég leitaði til hans með, hann leysti málið umsvifalaust. Og miklu meira: hann tók af mér öll leiðinlegustu verkin – eins og að reikna út einkunnir sem samanstanda af mörgum þáttum sem vega mismikið. „Láttu mig um þetta Guðrún mín – ég er enga stund að því.“ Þegar ég fór í rannsóknarleyfi bætti hann minni kennslu á sig, og hafði þó miklu meira en nóg að gera. Hafði alltaf tíma til að útskýra flókna hluti á sinn íhugula og stillilega hátt. Bóngóður og ósérhlífinn vinur í raun. Gegnum þessa áratugi dýpkaði vinátta okkar svo að hann varð mér sem bróðir.“

Útför Jóns Ólafs fer fram frá Fossvogskirkju í dag sem fyrr segir.