Hringbraut skrifar

Sakar "vinstriskessurnar" um uppfærslu innantóms leikrits á alþingi

10. desember 2019
15:45
Fréttir & pistlar

Ingvi Hrafn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri RÚV og sjónvarpsstjóri ÍNN lætur það flakka í Ritstjóraþætti kvöldsins á Hringbraut og segir \"vinstriskessurnar\" í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vera að setja upp innantómt leikrit með furðulegri og illa ígrundaðri frumkvæðisathugun sinni á Samherjamálinu. Og þar beinir hann orðum sínum að Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Helgu Völu Helgadóttur.

Áminntur af spyrli um að nota sómasamleg orð um fjarstadda segir hann tröllslegar yfirlýsingar þessara þingkvenna kalla á orðnotkun af þessu tagi, en Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, sessunautur Ingva Hrafns í þættinum grípur hér boltann á lofti og segir íslenska samfélagsumræðu almennt vera orðna alltof orðljóta. Ingvi Hrafn samsinnir því, þrátt fyrir að hafa slengt fram orðinu \"vinstriskessur\" nokkrum sekúndum áður - og segir það agalegt að menn hrópi á torgum þau orð að Sjálfstæðisflokkurinn, hans gamli flokkur, sem kom honum jú í fréttastjórastöðuna á RÚV, eins og hann viðurkennir í þættinum, megi heita \"bláa krabbameinið\" á Íslandi.

Þeir tala um pólitíkina, ris Miðflokksins, fall Sjálfstæðisflokksins, óbragð Samherjaskjalanna, broslega mynd af Katrínu Jakobsdóttur á nýlegum Nató-fundi, tómar síður Fréttablaðsins - og  RÚV sem virðist geta valið hvenær það fer að lögum. 

Þátturinn fer í loftið, með látum, klukkan 21:00.