Sægreifar fá makleg málagjöld

Ótti og skelfing grípur nú um sig í herbúðum sægreifa á Íslandi. Allt síðast kjörtímabil höfðu sægreifar „sinn mann“ í embætti sjávarútvegsráðherra, mann sem þeir gátu treyst og vissi til hvers var ætlast af honum. Mann sem hafði taugar til sægreifa og fullvissaði sig um velferð þeirra. Mann sem ekki hikaði við að taka upp símann eða jafnvel mæta í eigin persónu þegar eitthvað bjátaði á eða mikið stóð til.

En nú er ráðherraferli Kristjáns Þórs Júlíussonar lokið. Sægreifar horfa á eftir einhverjum meðfærilegasta sjávarútvegsráðherra sem setið hefur, að minnsta kosti hin seinni ár. Í hans stað kemur sleggja úr búðum Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir. Hún hefur munninn fyrir neðan nefið og bein í nefinu. Hún verður ekki jafn meðfærileg af hálfu sægreifa og forveri hennar í embætti.

Þetta vita sægreifar og kunna Bjarna Benediktssyni engar þakkir fyrir að hafa samið af sér sjávarútvegsmálin. Hvers vegna heldur Bjarni eiginlega að stórútgerðin bakki hann upp á hverjum landsfundinum á fætur öðrum? Til hvers heldur hann eiginlega að hann sé í pólitík? Hvernig vogar hann sér að afhenda „frekri kommakerlingu“ þetta mikilvægasta ráðuneyti stjórnarráðsins? Og ekki bara einhverri „frekri kommakerlingu“ heldur sjálfri Svandísi Svavarsdóttur!

Hvað er það eiginlega sem Bjarni Benediktsson ekki skilur við sitt hlutverk í stjórnmálum? Hann má vera formaður og hann má vera fjármálaráðherra og hann má jafnvel leyfa formanni sósíalista að vera forsætisráðherra. Hann getur haft nokkuð frítt spil svo lengi sem hann passar upp á að vera með pottþéttan mann í þröngu hagsmunagæslunni í sjávarútvegsráðuneytinu. Það er allt sem stórútgerðin biður um. Bjarni hafði eitt verkefni við þessa stjórnarmyndun – eitt verkefni! Einhver hefði kalla þetta að fara út af í fyrstu beygju.

Til að bæta gráu ofan á svart er Guðmundur Guðbrandsson, fráfarandi umhverfisráðherra, með vinnumarkaðsmál í nýrri ríkisstjórn. Sem kunnugt er áorkaði Guðmundur engu á fjórum árum í umhverfisráðuneytinu sem eru þó hans ær og kýr. Sumir kalla hann Guðmund „verklausa“. Nú tekur hann við vinnumarkaðsmálum á ögurstund þegar framundan eru snúnir kjarasamningar og allt stefnir í átök á vinnumarkaði næsta haust, ef ekki fyrr.

Ætla má að í baklandi Sjálfstæðisflokksins verði takmörkuð þolinmæði gagnvart þessari ríkisstjórn þar sem Svandís Svavarsdóttir fer með sjávarútvegsmál og Guðmundur Guðbrandsson með vinnumarkaðsmál. Þeir sem raunverulega ráða málum í Sjálfstæðisflokknum sitja ekki í Garðabæ, Valhöll eða við Austurvöll. Þeirra vettvangur er í Borgartúni, á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Fróðlegt verður að sjá viðbrögðin þaðan við þessari nýju ríkisstjórn.

- Ólafur Arnarson