Rúm­lega 40 smitaðir af CO­VID-19 eftir swing­partý

„Ef ég gæti farið aftur í tímann þá myndi ég hætta við þennan við­burð,“ segir Bob Hanna­ford í sam­tali við banda­ríska fjöl­miðla.

Bob þessi tók að sér að skipu­leggja svo­kallað swing­partý á dögunum en af­leiðingarnar urðu þær að nú er 41 ein­stak­lingur sem mætti með CO­VID-19.

Við­burðurinn, sem gengur undir nafninu Naug­hty in N‘awlins og fór fram í New Or­leans, dregur að sér að allt að þúsund pör á hverju ári en vegna kórónu­veirufar­aldursins var eftir­spurnin nú minni en oft áður.

Um 250 ein­staklingar mættu á svæðið og segir Bob að reynt hafi verið til hins ítrasta að halda uppi ströngum sótt­varnar­ráð­stöfunum. Þannig var grímu­skylda, fólk hvatt til að halda góðri fjar­lægð og loks var boðið á skimanir fyrir CO­VID-19.

Við­burðurinn, sem dreifðist yfir nokkra daga, fór fram á NOPSI-hótelinu um miðjan nóvember, eða rétt áður en 100 manna sam­komu­tak­markanir innan­dyra tóku gildi vegna fjölgunar smita. Bob segist miður sín vegna málsins, hann hafi talað við flesta þeirra sem veiktust og sem betur fer sé enginn al­var­lega veikur enn sem komið er.

Hann segir að fólk hafi passað allar smit­varnir vel í fyrstu en þegar líða fór á við­burðinn hafi fólk orðið kæru­lausara. Það sé lík­lega á­stæða þess að hóp­smitið kom upp.