Rot­höggið bjargaði lífi Tómasar: „Þetta hefði geta farið svo illa. Þau á spítalanum kölluðu þetta hæg­fara dauða“

Knatt­spyrnu­dómarinn Tómas Meyer rotaðist á dögunum í leik sem hann dæmdi í 3. deild karla á vegum KSÍ. Í út­varps­þætti Fót­bolti.net í gær sagði Tómas frá því hvernig það að hafa rotast hafi í raun bjargað lífi sínu.

Um­rætt at­vik átti sér stað í kringum fimm­tugustu mínútu í leik Augna­bliks og KH í 3. deild karla í upp­hafi mánaðar. Tómas Meyer, sem var dómari leiksins rotaðist þegar boltanum var spyrnt beint í höfuð hans.

,,Ég dæmi þarna auka­spyrnu í kringum fimm­tugustu mínútu, bara venju­lega auka­spyrna og ég dæmi hana bara og hleyp síðan að­eins frá. Næsta sem ég man eftir er bara að hafa vaknað eftir rot­högg," sagði Tómas í út­varps­þætti Fót­bolta.net.

Sjúkra­bíll var kallaður til en leik­menn liðanna voru við það að hefja endur­lífgun þegar að Tómas rankaði við sér og hóf að anda eðli­lega á ný.

,,Ég átti rosa­lega erfitt með að ná andanum eftir að ég vaknaði, ein versta lífs­reynsla sem ég hef lent í. Ég næ síðan eðli­legri öndun en er náttúru­lega bara í tómu sjokki, allur blóðugur. Ég hef nú ekki séð upp­töku af at­vikinu en boltinn kemur væntan­lega á gagn­augað á mér og ég lendi síðan á and­litinu og brjóst­kassanum."

Tómas segist fyrst hafa verið leiddur inn til búnings­her­bergja. Þangað hafi sjúkra­flutninga­menn síðan komið og á­kvörðun tekin um að fara með hann á sjúkra­hús í tékk til þess að ganga í skugga um að allt væri í lagi.

,,Á sjúkra­húsinu kemur í ljós að ég var ekki alveg í lagi. Ég var með allt­of háan blóð­þrýsting."

Tómas var sendur á Land­spítalann þar sem hann dvaldi í heila viku og fór í frekari rann­sóknir.

,,Þá kemur í ljós að þetta er ætt­gengt. Núna er ég undir eftir­liti og líður mjög vel. Hlakka til að takast á við það verk­efni sem bíður mín núna."

Efri mörkin hjá Tómasi í blóð­þrýstings­mælingunni voru 267, eitt­hvað sem fáir hafa heyrt um.

,,Þetta hefði geta farið svo illa. Þau á spítalanum kölluðu þetta hæg­fara dauða (e. slow de­ath). Þarna fékk ég gott gult spjald sem ég tek fagnandi."

,,Þetta högg sá til þess að ég er kominn á kreik og það er verið að laga mig," sagði knatt­spyrnu­dómarinn Tómas Meyer í út­varps­þætti Fót­bolta.net í gær.

Þáttinn í heild sinni á­samt við­talinu við Tómas má hlusta á hér fyrir neðan.