Ring­ul­reið í vali á leið­tog­a Sjálf­stæð­is­flokks­ins: Eru menn komn­ir í sím­a­skrán­a?

Vandræðagangur sjálfstæðismanna í Reykjavík virðist seint ætla að taka enda. Engum dylst að borgarstjórnarflokkurinn er klofinn í herðar niður. Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir munu berjast um oddvitasætið þar til yfir lýkur. Hildur hefur verið í andstöðu við Eyþór allt kjörtímabilið og notið til þess atfylgis Katrínar Atladóttur.

Á meðan meirihluti flokksins í borginni hefur jarmað út í eitt yfir meirihlutanum og stefnu hans, gagnrýnt flest, hafa þær stöllur stillt sér upp með meirihlutanum í málum á borð við Borgarlínu, Laugaveginn og flugvöllinn.

Bakhjarl Eyþórs er Guðlaugur Þór Þórðarson en að baki Hildi standa Bjarni Benediktsson og kvennafylking flokksins. Eins og áður hefur komið fram hér þýðir lítið fyrir flokkseigendafélagið að tefla fram frambjóðendum til að fella Guðlaug Þór og hans skjólstæðinga. Það var reynt í prófkjörinu í sumar fyrir þingkosningarnar og jafnvel þótt öllu væri tjaldað til og metþáttaka hefði verið í prófkjöri sjálfstæðismanna hjá flokksbundnum pírötum og samfylkingarfólki, sem sótt var til að styðja Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dugði það ekki til.

Upp á síðkastið hefur fleiri nöfnum verið kastað á loft. Veislustjórinn Logi Bergmann telur mikla eftirspurn vera eftir sér, margir komi að máli við hann í hverri viku og allt hvaðeina. Gamli íþróttafréttaritari Þjóðviljans gæti kannski komið séð og sigrað hjá íhaldinu?

Einhverjir hafa fengið þá hugmynd að Halldór Benjamín Þorbergsson komi til greina þegar verulegrar þreytu er farið að gæta með hann hjá Samtökum atvinnulífsins. Annar starfsmaður samtaka í atvinnulífinu, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Kviku banka, hefur gengið þannig fram að undanförnu að margt bendir til þess að hann dauðlangi í framboð. Hann yrði þá fulltrúi Miðflokksarms Sjálfstæðisflokksins.

Sum nöfnin, sem heyrast nefnd, benda til þess að örvænting sjálfstæðismanna sé orðin slík að þeir séu farnir að leita að vænlegum foringjum í borginni af handahófi á já.is eða 1819.is, sem sé komnir í símaskrána. Hvað ætli við fáum að sjá næst? Verður stungið upp á Halla og Ladda? Ekki má gleyma því að slíkt hefur verið prófað áður þegar Jón Gnarr kom, sá og sigraði árið 2010, öllum að óvörum – og sumum til skemmtunar.

- Ólafur Arnarson