Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri könnun MMR. Evrópusinnaðir flokkar bæta miklu við sig.

Fylgi ríkisstjórnarflokkana mælist 44,7 prósent samkvæmt nýrri könnun MMR. Það skilar þeim 31 þingmanni sem gerir það að verkum að stjórnin þyrfti að taka Miðflokkinn inn í samstarfið til að halda völdum. Það yrði ekki til að auðvelda stjórnarmyndun.

Ekki er hægt að mynda þriggja flokka stjórn nema með samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eða Sjálfstæðisflokks og Pírata. Vandinn er bara sá að bæði Samfylking og Píratar hafa hafnað því fyrirfram að vinna með Sjálfstæðisflokki. Það er svo annað mál að ekki er að treysta slíkum yfirlýsingum. Það er ekkert að marka þær í raun og veru. Þess vegna skyldu menn ekki útiloka samstarf Sjálfstæðisflokks og þessara flokka eftir kosningar.

Samkvæmt könnun MMR fengi Sjálfstæðisflokkur sextán þingmenn kjörna, Samfylking ellefu, Píratar níu, Viðreisn sjö, Vinstri grænir sjö og Miðflokkur fimm. Hvorki Flokkur fólksins né Sósíalistaflokkurinn kæmu fulltrúum á þing.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking gætu unnið saman hefðu flokkarnir 27 þingmenn og gætu því valið sér einn flokk til samstarfs til að ná meirihluta á Alþingi. Líklegt er að Samfylkingin legði áherslu á að fá Viðreisn til liðs við flokkana til að mynda meirihluta en Sjálfstæðisflokkur legði væntanlega helst áherslu á að taka Framsókn inn í samstarfið. Fleiri kostir stæðu til boða ef úrslit kosninganna yrðu þessi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætti mesta möguleika á að verða forsætisráðherra enda héldi flokkurinn þingmannafjölda sínum og fengi flesta þingmenn kjörna. Samkvæmt niðurstöðu þessarar könnunar töpuðu Vinstri græn fjórum þingsætum og þar með kæmi Katrín Jakobsdóttir ekki til greina sem áframhaldandi forsætisráðherra.

Framsókn héldi óbreyttum þingmannafjölda en sigurvegarar kosninganna yrðu Samfylking sem bætti við sig fjórum þingmönnum, Viðreisn sem bætti við sig þremur og Píratar sem bættu einnig við sig þremur þingsætum. Þessir þrír flokkar eru allir Evrópusinnaðir og bæta samtals við sig tíu þingsætum. Í því felast merkileg skilaboð.