Reynir Trausta segir árásina mikið högg

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, segir árásina sem hann var fyrir persónulega og vinnustað hans mikið högg. Hann segir að hann og hans starfsfólk vinni nú að því að koma öllu aftur í stand á skrifstofu Mannlífs eftir að brotist var þangað inn og í bíl hans, tækjum stolið og fréttum og umfjöllunum eyddum af vef hans. Málin eru bæði komin á borð lögreglunnar.

Reynir segir í færslu á Facebook-síðu sinni í dag að meðal þess sem að hvarf af vefnum séu umfjallanir Mannlífs um ónefndan auðmann sem munu birtast á næstunni.

Mannlíf hefur undanfarið fjallað ítarlega um meinta háttsemi auðmannsins Róberts Wessman og til stóð að flytja fleiri fregnir um málið. Reynir greindi frá því nýlega á Facebook að bandarísk lögmannsstofa hafi krafið Mannlíf fyrir hönd Róberts að fjölmiðillinn afhenti þeim gögn að baki frétta þeirra um líflátshótanir hans, meint ofbeldi gegn samstarfsfólki og önnur mál sem að honum snúa.

Í viðtalið við Fréttablaðið í gær sagðist Reynir ekki geta fullyrt um það hvort að umfjöllun Mannlífs um Róbert Wessman tengist innbrotinu og árásinni á vefinn en sagði tímasetningun áhugaverða.

„Eftir erfiðan dag í gær hefur rofað til. Lét skipta um læsingar á heimili mínu og nágrannar sjá um að vakta óeðlilegar mannaferðir. Tjónið af innbrotinu í bílinn minn og á ritstjórnarskrifstofurnar er mikið, bæði fyrir mig persónulega og fyrir útgáfuna. Þetta var í senn þjófnaður á stórum hluta útivistarbúnaðar míns, tölvum á ritstjórn og skemmdarverk á mannlif.is og bifreið. Enn eigum við eftir að ná upp nokkrum fréttum sem glæpamennirnir eyddu í fyrrinótt en mannlif.is er að öðru leyti opinn og virkur. Strákarnir á Kaktus hafa þar unnið þrekvirki í að bjarga málum.

Á meðal þess sem hvarf eru áður birtar, ítarlegar umfjallanir um ónefndan auðmann sem munu birtast á næstunni,“ segir Reynir í færslunni.

Hann segir árásina mikið högg en þakkað þeim sem hafa hjálpað og sérstaklega formanni Blaðamannafélags Íslands en félagið sagði í gær að þau litu árásina mjög alvarlegum augum.

Fleiri fréttir