Reynir segist hafa fengið hótanir: „Lára Ómarsdóttir sendi harðorðan tölvupóst“

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, fullyrðir að hann hafi fengið hótanir frá Róberti Wessman eftir að Reynir birti pistilinn Þögnin um Wessman. Mannlíf hefur mikið fjallað um málefni Róberts undanfarið.

„Mannlíf birti grein undir flokknum Orðrómur á föstudag sem bar yfirskriftina „Þögnin um Wessman“ og ekki leið á löngu þar til hótanir um lögsókn bárust frá Róberti,“ segir í grein Reynis. „Lára Ómarsdóttir sendi harðorðan tölvupóst þar sem hún krafðist leiðréttingar á tímasetningu þess hvenær Róbert hefði beðist afsökunar á umræddum morðhótunum.“

Reynir segir ekkert óeðlilegt við skrifin: „Greinin endurspeglaði þó aðeins umfjöllun fjölmiðla af málum Róberts undanfarin misseri og opinberar ásakanir, sem hann hefur ekki viljað svara efnislega.“