Reykvíkingum brugðið: „Það nötraði allt hérna“

21. september 2020
13:20
Fréttir & pistlar

Segja má að íbúum í nokkrum hverfum í Reykjavík og nágrenni hafi brugðið nokkuð þegar Boeing 747 flugvél var flogið nokkuð lágt yfir höfuðborgarsvæðið nú í hádeginu. Íbúar í Norðlingaholti virðast sérstaklega hafa orðið varir við þetta ef marka má umræður á Facebook-síðu íbúa.

Sá sem hóf umræðuna segir að flugvélin, sem virðist vera í eigu Air Atlanta, hafi flogið svo lágt um tíma að hún taldi að hún væri að fara nauðlenda.

„Það nötraði allt hérna,“ segir einn í umræðunum og tekur annar íbúi undir þetta.

„Já, horfði á þetta, fannst svona stór vél fara óþægilega nálægt Norðlingaskóla og börn þar úti að leik,“ segir kona ein. Þá veltir annar íbúi því fyrir sér hvort svona lágflug sé í lagi.

Flugvélin flaug einnig nokkuð lágt yfir miðborg Reykjavíkur og urðu vegfarendur þar varir við drunurnar sem fylgdu fluginu.

Þá urðu íbúar í Breiðholti einnig varir við vélina og sitt sýnist hverjum um lágflugið. „Mér leið eins og ég gæti næstum snert hana með uppréttri hönd, hún flaug svo lágt,“ segir ein í Facebook-hópi íbúa. Einn íbúi bendir á að svona mætti að minnsta kosti auglýsa áður en það er framkvæmt.

Ef marka má umræður í Facebook-hópnum Flugnördar er vélin sú nýjasta í flota Air Atlanta. Á fréttavef Vísis kemur fram að Air Atlanta hafi fengið leyfi til að fljúga henni lágt yfir höfuðstöðvar sínar í Kópavogi áður en henni var lent á Keflavíkurflugvelli.