Rétt öld liðin frá friðun Þórsmerkur - Nýir þættir um friðlandið

Birkiskógurinn í Þórsmörk og gömlu afréttunum sunnan Krossár hefur heldur betur náð að dafna á síðustu áratugum eftir að svæðið var friðað fyrir búfjárbeit og skógarhöggi – og ná nú hæstu plönturnar meira en 600 metra hæð, hærra en nokkur annar birkiskógur á Íslandi.

Nýir sjónvarpsþættir um friðlandið Þórsmörk

Þetta kemur fram í tveggja þátta sjónvarpsþáttaröð um friðlandið í Þórsmörk og nærsvæði hennar, en seinni þátturinn er á dagskrá Hringbrautar í kvöld, vel skreyttur þeim miklu náttúrugersemum sem blasa við gestum þessa hluta Fjallabaks. Þar í hreiðri jökla og eldfjalla er skógurinn fyrir margt löngu orðinn sjálfbær, ólíkt því sem var á fyrri hluta síðustu aldar, en ofbeit hafði þá gengið að skóginum nærri dauðum. Og það sáu bændur í Fljótshlíð, Landeyjum og undir Eyjafjöllum öðrum mönnum betur, en þeir afréðu sumarið 1920, fyrir réttri öld, að við svo búið mátti ekki vera og gáfu þessi upprekstrarlönd sín eftir, svo friða mætti gamla skógarsvæðið. Afraksturinn er einn glæsilegasti birkiskógur landsins sem þúsundir landsmanna og erlendra ferðamanna njóta á hverju ári, en mikil vinna hefur verið lögð í stígagerð á svæðinu svo auðveldara sé að njóta þess, en gönguleiðirnar eru nú orðnar meira en 70 kílómetra langar.

Í þætti kvöldsins verður farið í Nauthúsagil, Steinsholtsgjá og Stakkholtsgjá og undur þeirra kima skoðuð, auk þess sem klifrað er upp á Útigönguhöfða og Valahnúk sem gefa mikla sýn yfir svæðið, en þar fyrir utan er sprangað um Þórsmörkina sjálfa, jafnt austan Langadals þar sem steinboginn er barinn augum og vestan hans þar sem fjölmargir forvitnilegir hellar og skútar eru skoðaðir.

Þátturinn hefst klukkan 20:00 og er unninn í samstarfi við Skógræktina með stuðningi frá Umhverfisráðuneytinu.