Rakleiðis með þetta í búðir, segir aðstoðarkona Loga

„Rakleiðis með þetta í búðir segi ég,“ segir Freyja Steingrímsdóttir, aðstoðarkona Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á Twitter.

Freyja deilir þar frétt Fréttablaðsins frá því í dag þar sem fjallað var um nýja staðsetningu á verslun Vínbúðarinnar í stað þeirrar sem var í Austurstræti. Eftir að hafa farið yfir málið var það niðurstaða ÁTVR að hagstæðast væri fyrir ÁTVR að flytja verslunina í húsnæði við Fiskislóð 10.

Verði þetta að veruleika verður engin vínbúð í miðborg Reykjavíkur sem verður að teljast talsverð þjónustuskerðing fyrir þá fjölmörgu sem hafa reitt sig á þjónustu Vínbúðarinnar í miðbænum á undanförnum árum.

„Ætlar Vínbúðin svona í alvöru ekki að hafa verslun í miðbæ Reykjavíkur? Það er alveg galið,“ segir Freyja og kallar eftir því að áfengi verði selt í búðum.