Ráðu­neytið leitar til Þór­ólfs: „Gífur­­lega mikil­­vægt verk­efni með rettan ein­stak­ling í brúnni“

Heil­brigðis­ráð­herra hefur skipað þver­fag­legan starfs­hóp til að móta fram­tíðar­sýn og á­ætlun um að­gerðir til að sporna við út­breiðslu sýkla­lyfja­ó­næmra baktería.

Þór­ólfur Guðna­son, fyrr­verandi sótt­varna­læknir, er for­maður hópsins. Þór­ólfur hefur verið ráðinn tíma­bundið til heil­brigðis­ráðu­neytisins til að leiða verk­efnið sem unnið er með mat­væla­ráðu­neyti og ráðu­neyti um­hverfis-, orku- og lofts­lags­mála.

Starfs­hópurinn hefur það hlut­verk að auka þver­fag­legt sam­starf til að sporna við út­breiðslu sýkla­lyfja­ó­næmis. Hópnum er ætlað að móta fram­tíðar­sýn og að­gerða­á­ætlun til næstu tíu ára með til­lögum um leiðir til að hrinda að­gerðunum í fram­kvæmd. Liður í verk­efni hópsins er enn fremur að vinna að vitundar­vakningu í sam­fé­laginu til að auka þekkingu al­mennings á sýkla­lyfja­ó­næmi, hvað í því felst og hvað sé til ráða.

Læknirinn jón Magnús Jóhannesson fagnar ráðningu Þórólfs í Facebokk hópnum Vísindi í fjölmiðlum.

„Gífur­lega mikil­vægt verk­efni með rettan ein­stak­ling í brúnni.“ Vaxandi sýkla­lyfja­ó­næmi er ein helsta lýð­heilsu­vá sam­tímans, og þó Ís­land sé með hlut­falls­lega lítið af slíku ó­næmi er víða pottur brotinn i hvernig við notum sýkla­lyf.Lík­legast er enginn lyfja­flokkur sem hefur gegnum ára­tugina bjargað jafn­mörgum manns­lífum og sýkla­lyf (fyrir utan kannski bólu­efni), en við stefnum hrað­byri i að geta ekki lengur nýtt okkur þessa auð­lind. Til að sporna gegn þróun ó­næmis þarf sam­stillt átak þar sem sam­fé­lagið allt tekur þátt

Sýkla­lyfja­ó­næmi felur í sér að bakteríur verða ó­næmar fyrir sýkla­lyfjum sem gerir með­ferð ýmissa sýkinga erfiða og jafn­vel ó­mögu­lega. Sam­kvæmt viða­mikilli fjöl­þjóð­legri rann­sókn sem fjallað var um í tíma­ritinu Lancet fyrr á þessu ári er talið að árið 2019 hafi allt að 1,3 milljónir manna látist á heims­vísu af völdum sýkla­lyfja­ó­næmra baktería. Á­stæður þess að bakteríur þróa með sér ó­næmi gegn sýkla­lyfjum eru fjöl­þættar en of­notkun eða röng notkun sýkla­lyfja meðal manna og dýra vegur þar þungt. Um­hverfis­þættir geta einnig haft á­hrif þar sem ó­næmar bakteríur geta borist í menn með mat­vælum sem komist hafa í snertingu við vatn eða á­burð sem inni­hélt ó­næmar bakteríur.

Al­þjóða­stofnanir sem starfa á sviði heil­brigðis­mála, mat­væla­öryggis og um­hverfis­mála telja sýkla­lyfja­ó­næmi eina helstu heil­brigðis­ógnina sem steðjar að fólki í dag. Þessar stofnanir hafa hvatt þjóðir til að grípa til allra mögu­legra ráða til að stemma stigu við út­breiðslu sýkla­lyfja­ó­næmis á grund­velli hug­mynda­fræði ,,Einnar heilsu“ (e. One Health) sem byggir á því að heil­brigði manna, dýra og um­hverfis sé sam­tengt sem kalli á heild­stæð og sam­ræmd við­brögð.

Tölu­verð vinna hefur átt sér stað hér á landi til að sporna gegn út­breiðslu sýkla­lyfja­ó­næmis. Skýrsla starfs­hóps sem fjallaði um sýkla­lyfja­ó­næmar bakteríur í mönnum, dýrum, slátur­af­urðum var kynnt í ríkis­stjórn í septem­ber 2021. Þar var m.a. lagt til að skipaður yrði þver­fag­legur hópur til að vinna að að­gerðum á þessu sviði.

Skipan hópsins


Þór­ólfur Guðna­son, fyrr­verandi sótt­varna­læknir, án til­nefningar, for­maður
Anna Margrét Hall­dórs­dóttir, til­nefnd af sótt­varna­lækni
Hólm­fríður Þor­steins­dóttir, til­nefnd af um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytinu
Jón Steinar Jóns­son, til­nefndur af Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins
Karl Gústaf Kristins­son, til­nefndur af Land­spítala
Lilja Þor­steins­dóttir til­nefnd af Til­rauna­stöð Há­skóla Ís­lands í meina­fræðum að Keldum
Vig­dís Tryggva­dóttir, til­nefnd af Mat­væla­stofnun.
Guð­lín Steins­dóttir, án til­nefningar og jafn­framt starfs­maður nefndarinnar.

Fleiri fréttir