Ráðherra vill draga úr stofnanaveldinu

Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra segir að stjórnmálin hafi gefið stofnunum landsins allt of mikil völd á síðustu árum og áratugum og þar sé komið í óefni. Hann vill snúa af þessari leið og draga úr forræðinu og einfalda regluverk.

Þetta kemur fram í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í kvöld þar sem ráðherra fer yfir aðgerðir atvinnuvegaráðuneytisins til að mæta áhrifum Covid 19 á landbúnað og sjávarútveg. Sjálfur segist hann hafa brett upp ermar í sínu ráðuneyti, fækkað reglugerðum í greinunum úr 2000 í 800 í sinni vakt, hreinsað sum sé til – og næsta verkefni sé að slaka á stofnanaveldinu sem oft og tíðum sé mjög íþyngjandi og seinvirkt úti í atvinnulífinu.

Í þessu efni má nefna að ein tillagna ráðuneytis Kristjáns Þórs til að mæta áhrifum Covid 19 er að flýta afgreiðslu leyfa til fiskeldis í landinu, en samhliða miklum vexti greinarinnar undanfarin ár hafi málsmeðferð rekstrarleyfisveitinga vegna fiskeldis þyngst umtalsvert. Nú sé tíminn, segir Kristján í viðtalinu, að auðvelda fyrirtækjum í landinu viðspyrnu og vöxt á kostnað stofnanahyggju.