Píratar brjálaðir út í stjörnublaðamann DV – Halldóra og Þórhildur neita að svara: „Hér segi ég stopp“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, fer hörðum orðum um Heimi Hannesson, stjörnublaðamann DV, eftir að hann spurði hana hvort hún bólusetji barnið sitt.

„Sko nú er ég eindregin stuðningskona bólusetninga og deildi stolt mynd af mér í bólusetningunni við Covid en hér segi ég stopp,“ segir Þórhildur á Facebook. „Þingmenn búa við minni friðhelgi einkalífs en aðrir en við eigum enn almennt rétt á friðhelgi gagnvart heilsufarsupplýsingum.“

Varðandi hvort hún bólusetji barnið sitt segir hún: „Að fara svo að krefjast þess að ég og aðrir upplýsi um heilsufar barnanna okkar er fyrir neðan allar hellur. Hingað til trúði ég því að börn pólitíkusa væru í skjóli frá ágengum spurningum blaðamanna, hvað þà viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra en þetta virðist vera að breytast,“ segir Þórhildur. „Ég segi bara látið barnið mitt í friði! Hann er ekki opinber persóna og þið eigið engan rétt à upplýsingum um hann.“

Heimir bætti við spurningum

Stjörnublaðamaðurinn Heimir svarar fullum hálsi í athugasemdum og bendir á að aðeins Þórhildur Sunna og Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, hafi neitað að svara. Halldóra blandar sér ekki inn í umræðuna og má lesa á milli línanna að mögulega sé Þórhildur að verja Halldóru frá því að svara. „Nú hefur 21 þingmaður svarað spurningunum. Harkaleg afstaða ykkar til spurninga minna vekur óneitanlega upp spurningar um hvað búi þar að baki.“ Hefur hann svo sent Halldóru þrjár spurningar til viðbótar.

Harmageddon-bræður verja Heimi

Máni Pétursson og Frosti Logason, stjórnendur Harmageddon á Xinu 977, blanda sér svo inn í umræðurnar.

„Þetta er vandræðarlegt að lesa og fyrir neðan þína viðringu. Ert þú þingmaðurinn komin á sama stað og fólkið sem þú þykist vera of góð til að vinna með? Ert þú að segja okkur fjölmiðlamönnum hvað er góð blaðamennska og hvað ekki??,“ segir Máni. „Afhverju sendir þú líka ekki bara á blaðamannin í staðinn fyrir það að reyna gera lítið úr honum og pósta þessu á samfélagsmiðla. Þú ert að detta í einhvern elítu fíling. Spurning um að skipta um flokk eða taka bara frí.“

Helgi Hrafn svarar

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, svarar Mána: „Ekki reyna að verja þetta. Það er algerlega út í hött að fjölmiðli detti það einu sinni til hugar að spyrja út í börnin okkar,“ segir hann. „Og já, að sjálfsögðu segjum við fjölmiðlamönnum að það sé hörmuleg blaðamennska og siðlaust að ætlast til þess að stjórnmálafólk gefi upp heilsufarsupplýsingar um börnin sín.“

Frosti svarar Helga og Þórhildi: „Hér er auðvitað ekki verið að spyrja um heilsufarsupplýsingar barna ykkar heldur um afstöðu ykkar, sem forráðamenn barna, til bólusetninga. Það eru upplýsingar sem geta skipt kjósendur máli.“

Dósent segir bólusetningar ekki viðkvæmar upplýsingar

Erna Magnúsdóttir, dósent við læknadeild HÍ, segir svo:

„Persónulega finnst mér óþolandi að það sé litið á bólusetningarstatus gegn COVID-19 sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Mér finnst það mikill skinheilagleiki. Þetta snýst nefnilega alls ekki um einstaklingana heldur samfélagið. Það ætti ekki að vera einkamál hvort maður er bólusettur.“