Pétur með hörð skila­boð: „Ég óska eftir því að ekki einasti maður frá ÍTF komi ná­lægt verð­launa­af­hendingunni á morgun"

Pétur Péturs­son þjálfari Ís­lands­meistara Vals í fót­bolta sparaði ekki stóru orðin í garð ÍTF, hags­muna­sam­tök fé­lega í efstu deildum á Ís­landi.

„Ég óska eftir því að ekki einasti maður frá ÍTF komi ná­lægt verð­launa­af­hendingunni á morgun," sagði Pétur við Fót­bolta.net í dag.

Valur tryggði sér Ís­lands­meistara­titilinn í Bestu deild kvenna um síðustu helgi og á að fá skjöld fyrir sigur á mótinu í síðasta heima­leiknum á morgun.

Pétur hefur gagn­rýnt KSÍ og ÍTF harð­lega á síðustu dögum vegna þess að loka­um­ferðin í Bestu-deild kvenna fer fram 14:00 og því skerst verð­launa­af­hendingin á við úr­slita­leik FH og Víkings í Mjólkur­bikar karla sem hefst 16:00.

Orri Hlöð­vers­son for­maður ÍTF sem eru hags­muna­sam­tök fé­laga í efstu deildum mun af­henda Skjöldinn á­samt Vöndu Sigur­geirs­dóttur for­manni KSÍ.

„Ég hefði miklu frekar viljað fá sjálfs­af­greiðslu eins og í Krónunni," sagði Pétur í dag. „Menn sem hafa tekið svona á­kvörðun og ætla ekki að skipta um skoðun ættu ekki að koma ná­lægt svona af­hendingu því ÍTF ber ekki virðingu fyrir okkur," sagði Pétur við fót­bolti.net

„Það er ekki að neinu leiti rök­rétt að fólk sem tekur svona á­kvarðanir komi brosandi til okkar og af­hendi okkur verð­laun sem þeim er ná­kvæm­lega sama um. Þeir hafa vitað af þessu í næstum því eitt ár," bætti hann við að lokum.