Pawel ljóstrar upp um leyndarmál þingsins: „Ég er að biðja um að láta hýða mig“

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi og fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, hefur varpað sprengju inn í stjórnarandstöðuna á þingi með því að ljóstra upp ljótum sannleika um nefndarformennsku stjórnarandstöðunnar.

Á síðasta þingi var stjórnarandstaðan með formennsku í þremur nefndum þingsins, á þessu þingi verður aðeins ein þingnefnd undir formennsku stjórnarandstöðunnar. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, verður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ákvörðun stjórnarflokkanna að taka hinar formennskurnar af stjórnarandstöðunni hafa vægast sagt fallið í grýttan jarðveg.

Pawel, sem sat á þingi við Viðreisn fyrir nokkru, blandar sér í umræðuna á Facebook og segir: „Ég veit að ég er að biðja um að láta hýða mig af öðrum stjórnarandstæðingum... en nefndarformennskur stjórnarandstöðunnar á þingi eru tilgerðarleg sýndarmennska sem má afleggja.“

Líf Magneudóttir, oddviti VG í borgarstjórn, spurði hvers vegna þessi skoðun væri ekki á Twitter, hann svaraði einfaldlega: „Þori ekki.“

Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, varði þó formennskuna einu:

„Eftirlithlutverk þingsins verður þó varla mjög virkt ef þingmenn meirihlutans bera ábyrgð á því. Tel mikilvægt að formennskan í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé á hendi minnihlutans.“