Páll segir grunnskólann vera kvennaskóla - „Kvenlægar kennsluaðgerðir ráðandi“

23. febrúar 2021
18:00
Fréttir & pistlar

Páll Vilhjálmsson, bloggari og kennari, segir að grunnskólinn sé í raun og veru kvennaskóli sé tekið mið af kennarastéttinni.

„Um 90 prósent kennara eru konur, já níu af hverjum tíu. Aðeins einn karlkennari fyrir hverja níu kvenkennara,“ segir Páll í pistli á bloggsíðu sinni sem vakið hefur talsverða athygli.

Hann segir að drengjum sé kennt, bæði beint og óbeint, að menntun sé fyrir stúlkur.

„Kvenlægar kennsluaðgerðir, s.s. ,,yndislestur" eru ráðandi eins og við er að búast í kvennaskóla,“ segir hann og bætir við að útkoman sé fyrirsjáanleg.

„Einungis þriðjungur þeirra sem útskrifast úr háskóla er karlar. Munurinn eykst þegar litið er til framhaldsnámsins. Karlar eru í miklum minnihluta þeirra sem útskrifast með meistara- og doktorspróf,“ segir Páll sem endar pistil sinn á þessum orðum:

„Gjaldfall menntunar blasir við. Háskólastéttir, sem óðum kvenvæðast, lækka í launum hlutfallslega við aðrar starfsstéttir. Háskólanám almennt lætur á sjá, samanber hjávísindin um manngert veður og kynjafræði sem segja Darwin ómarktækan og halda fram bábiljum um að kynin séu félagslega skilgreind en ekki líffræðilega.“