Óvinurinn

Það er fal­legt þegar stjórn­mála­menn hrósa þeim sem eiga að teljast keppi­nautar eða and­stæðingar þeirra í stjórn­málum. Það lýsir ekki bara ör­læti heldur líka getu til að koma sér upp úr þeim pólitísku skot­gröfum sem stjórn­málin eru svo ó­þægi­lega full af.

Guð­mundur Andri Thors­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, hrósaði á dögunum þing­mönnum Pírata og sagði þá búa yfir ýmsum góðum kostum en tók um leið fram að hann deildi ekki öllu í sýn þeirra.

Engin á­stæða er til að fólk sé stöðugt að deila sömu sýn. Sá sem ætlast til þess er fastur í þröng­sýni. Hann þykist vita hvað er rétt og satt og leyfir ekki frá­vik frá því. Það er fá­rán­legt að dæma fólk eftir stjórn­mála­skoðunum þess, nema við­komandi sé al­ræmdur fas­isti sem ætíð gengur rangan veg.

Alltaf er nokkuð vand­ræða­legt að hlusta á stjórn­mála­menn segja: Við Sjálf­stæðis­menn – Við í Sam­fylkingunni – Við Fram­sóknar­menn og svo fram­vegis. Það er dá­lítið eins og með­limur í sér­trúar­flokki sé að tala. Ein­stak­lingur sem aldrei lætur hvarfla að sér að efast um mál­staðinn heldur fylgir fyrir fram gefinni línu af sannri sann­færingu. Það getur ekki verið hollt.

Það er ekkert ó­skap­lega langt síðan þing­maður, gamall í hettunni, kvartaði undan því að andinn á Al­þingi væri svo slæmur að ekki hvarflaði að þing­mönnum að setjast til borðs í há­degis­hléi með pólitískum and­stæðingum. Slíkt hefði hins vegar verið mikið sport á árum áður og úr hefðu orðið hinir líf­legustu mat­máls­tímar.

Flokks­hollusta blindar fólk allt of oft. Sjálf­stæðis­menn froðu­fella margir hverjir í hvert sinn sem Dagur B. Eggerts­son sést opin­ber­lega, enda er hann í þeirra huga maðurinn sem hefur sett sér það mark­mið að eyði­leggja Reykja­vík, og vill auk þess draga þá út úr einka­bílnum og henda þeim upp í strætó. Sem er fá­dæma ó­svífið því allir vita að sóma­kær Sjálf­stæðis­maður getur alls ekki látið sjá sig í strætó.

Vinstri menn geta svo enn ekki á heilum sér tekið vegna til­veru Davíðs Odds­sonar. Í hvert sinn sem ögrandi, hvöss og ó­svífin nafn­laus skrif birtast í Morgun­blaðinu, hvort sem um er að ræða Stak­steina eða Reykja­víkur­bréf, þá hrynur tauga­kerfi þessa fólks. Eina ráð þess er að fara ham­förum og for­dæma skrifin, án þess að rýna í þau. Enda þarf þess ekki. Það liggur í hlutarins eðli að skoðanir sem þar eru settar fram hljóta að vera rangar af því að Davíð Odds­son getur ekki nokkurn tíma haft á réttu að standa.

Nú má vel vera að í ein­hverjum til­vikum hafi ein­hver annar en Davíð skrifað við­komandi pistla og greinar, en að því er aldrei hugað – sem hlýtur að vera mjög frú­st­rerandi fyrir þann sem skrifað hefur en fær aldrei kredit. Hann er orðinn Davíð Odds­son án þess að vera það. Mjög súrrealískt hlut­skipti.

Hvernig væri nú að vinstri menn kæmu einn daginn dug­lega á ó­vart með því að hrósa Davíð Odds­syni? Eins og allir hlýtur hann stundum að hafa á réttu að standa. Varla er hann Ó­vinurinn sjálfur holdi klæddur. Eða hvað?

Leiðari Fréttablaðsins 7. ágúst 2020.