Óttar segir „heimskra manna ráð“ hafa tekið öll völd á Internetinu

Óttar Guðmundsson læknir segist í bakþönkum sínum í Fréttablaðinu orðinn þreyttur á að fá ráð frá allskonar fólki sem hann óskaði ekki eftir.

„Allir virðast hafa meiri á­hyggjur af mér í ellinni en ég sjálfur og vita hvað mér er fyrir bestu. Fólki finnst að ég eigi að að hætta að vinna og fara að spila golf. Ég á að flytja úr Hlíðunum í blokk fyrir gamlingja með lyftu, lokuðum svölum og sam­kvæmis­sal,“ segir Óttar og að hann fái einnig ráð varðandi mataræði, hreyfingu og hvers konar bíl hann á, eða ekki.

„Face-bókin hefur að geyma alls konar vitur­legar ráð­leggingar um mál­far og al­menna pólitíska hegðun. Endur­menntun ráð­leggur mér að fara bæði á nám­skeið í hag­nýtu fjár­mála­læsi og heima­síðu­gerð,“ segir Óttar.

Hann segir að við þetta hugsi hann til Ólafs í Lax­dæla sögu.

„Hann sagði ein­hvern tíma að heimskra manna ráð versnuðu eftir því sem þeir kæmu fleiri saman. Ólafur var for­spár í þessu til­liti. Mörgum öldum síðar varð Internetið ráðandi í allri um­ræðu þar sem bullið og „heimskra manna ráð“ tóku öll völd.“

Hægt er að lesa bakþanka Óttars á vef Fréttablaðsins.

Fleiri fréttir