Öryggis­vörðurinn miðaði á mig byssu

Dagur 250 og dagur 38 í ein­angrun.

Þeir eru byrjaðir að skjóta fólk í SuperDino.

Ég rölti í SuperDino í gær til að kaupa eitt­hvað í matinn og öryggis­vörðurinn tók upp laserhita­byssu, miðaði á höfuð mér og tók í gikkinn. Ég lék leikinn af sömu al­vöru, greip um höfuðið og þóttist falla niður á gólfið en vantaði leikara­hæfi­leikana og fór að hlæja. Konan á kassanum hló líka sem og nær­staddir við­skipta­vinir.

Öryggis­verðinum var hins­vegar ekki skemmt, setti upp fýlu­svip og skipaði mér að fá mér nýja hanska. Það var víst dagur plast­hanskanna í gær, en ég hafði verið með latex­hanska.

Þegar ég rogaðist út úr búðinni með inn­kaupin gaf ég öryggis­verðinum hon­nör og hann svaraði í sömu mynt svo hann er greini­lega búinn að fyrir­gefa mér at­hæfið. Ég komst svo alla leið heim í Ástar­hreiðrið með inn­kaupin án frekari skakka­falla.

Annars finnst mér þetta nýjasta sjónar­spil að mæla hitann í fólki með laserbyssu dá­lítið kjána­legt í ljósi þess að vart hefur nokkur manneskja mælst með kórónu­veiru í bænum í marga daga eða vikur sem er eðli­legt þegar bærinn hefur verið í út­göngu­banni síðan 15. mars og helsta vanda­málið sem getur hrjáð fólk er hættan á háum hita vegna timbur­manna sem hafa stór­aukist þessar fimm vikur.

Öryggis­vörðurinn hefði hins­vegar alveg mátt virða tveggja metra regluna.