Ómar lýsir erfiðum veikindum: Gat ekki staðið kyrr, legið eða setið, sofið eða vakað

Hinn ástsæli Ómar Ragnarsson fjallar um erfitt afbrigði kórónuveirunnar í færslu sem birtist á bloggsíðu hans í dag.

Umfjöllun Ómars byggir á lýsingu fótboltakappans kná Lional Messi, sem greindi frá leiðinlegum veikindum sínum á dögunum. Ómar segir lýsingar Messi hljóma kunnulega, en hann lýsir veikindunum á þennan hátt:

„Lýsing Messi á einkennum kórónuveirunnar hljómar kunnuglega í eyrum þess, sem fengið hefur svipaða útgáfu af þessum fjanda í aprílbyrjun. 

Einkennin voru ansi snörp í byrjun með stóru verkjakasti sem þungamiðju, og voru verkirnir það miklir og í öllum líkamshlutum einn daginn, að hvorki var hægt að standa kyrr, liggja eða sitja, sofa eða vaka.  

Veiran réðst á lungun eins og hjá Messi, og í kjölfar lungnabólgu fylgdu ströng fyrirmæli læknis um að leggja alveg af reglulegt vikulegt kapphlaup upp fjórar hæðir með skeiðklukkumælingu og taka nokkrar vikur í að forðast slíkt. 

Þegar blóðeitrun í hæl og ökkla fylgdi ótugtinni var enn meiri ástæða til að fara sér hægt. “

Að lokum veltir Ómar því fyrir sér hvort hægt verði að tala um nýtt afbrigði af veirunni.

„Nú hefur Messi lýst sínu afbrigði þannig, að hugsanlega verður hægt að tala um "Messi-afbrigðið af veirunni.“