Ólafur segir ríkið gefa útgerðinni einn Landspítala á hverju ári

Ólafur Arnarson hagfræðingur segir að ríkisstuðningur til útgerðarinnar á hverju ári nemi 75 milljörðum króna. Á sama tíma renni um 77 milljarðar til rekstrar Landspítalans á þessu ári.

„Ríkið er því að styðja kvótahafa um heilan Landspítala á hverju einasta ári. Minna gagn gera má, en núverandi lög um veiðigjöld miða að því að auka þennan stuðning enn,“ segir Ólafur í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Ólafur segir í grein sinni að vart þurfi að deila um að stöndugustu íslensku útgerðarfyrirtækin séu í fremstu röð á heimsmælikvarða. Ágreiningur sé þó um hvort það stafar af snilli stjórnenda þeirra og eigenda eða því að þau hafi nánast ókeypis aðgang að verðmætri þjóðarauðlind.

„Vitanlega er þetta styrkur“

Ólafur gefur lítið fyrir þau orð talsmanna kvótakerfisins að íslenskur sjávarútvegur þrífist og dafni án ríkisstyrkja þó vissulega megi færa rök fyrir því að ekki svo mikið sem túskildingur renni úr ríkissjóði til íslenskra útgerða, að minnsta kosti bókhaldslega.

„En þýðir þetta í raun að íslenskur sjávarútvegur njóti ekki ríkisstyrkja?,“ spyr Ólafur sem bendir á að á hverju ári renni tæpir þrír milljarðar króna úr ríkissjóði til Hafrannsóknastofnunar sem hefur í raun það hlutverk að þjónusta íslenskan sjávarútveg.

„Vitanlega er þetta styrkur til greinarinnar. Þá gegnir Landhelgisgæslan mikilvægu öryggishlutverki fyrir íslensk fiskiskip án þess að útgerðir séu sérstaklega rukkaðar fyrir rekstur hennar. En Landhelgisgæslan er líka lögregla sem hefur eftirlit með fiskiskipum þannig að mögulega má þessi ríkisstuðningur liggja milli hluta.“

15 þúsund krónur og 250 þúsund krónur

Ólafur bendir svo á að útgerðir landsins fái úthlutað veiðikvóta og hafi þannig afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

„Í orði kveðnu er fiskurinn í sjónum eign þjóðarinnar en í raun og veru hafa íslensk stjórnvöld fært útgerðum afnot af þessari auðlind. Fyrir þau afnot eru innheimt veiðigjöld sem reiknuð eru eftir nánast óskiljanlegum reglum sem meðal annars taka mið af afkomu útgerðarinnar. Þessi regla er afar vond þar sem ýmsar leiðir standa fyrirtækjum til boða til að stilla af afkomu sína. Segja má að stjórnvöld hafi afhent kvótahöfum fiskinn í sjónum til eignar,“ segir hann.

Að mati Ólafs – og raunar margra annarra – eru veiðigjöldin ekki í neinu samræmi við verðmæti kvótans. Nefnir hann að leiguverð fyrir þorsktonn sé um 250 þúsund krónur en handhafar kvótans greiði um 15 þúsund krónur til ríkisins fyrir tonnið.

„Með öðrum orðum verðmetur markaðurinn kvótann á ríflega sextánföldu því verði sem ríkið rukkar lánsama kvótahafa um. Dæmi eru um að handhafar kvóta hirði ekki um að veiða einn einasta sporð heldur leigi hann allan frá sér,“ segir hann.

Gjöldin lækka og lækka

Ólafur segir að talsmenn kvótakerfisins haldi því fram að veiðigjöldin séu þungur baggi á útgerðinni og í raun ósanngjarn skattur sem lagður sé sérstaklega á eina atvinnugrein.

„Greinilega hefur þessi málflutningur hitt í mark hjá núverandi stjórnvöldum vegna þess að á þessu kjörtímabili hafa veiðigjöldin lækkað markvisst frá ári til árs. Í upphafi kjörtímabilsins voru veiðigjöld um 12 milljarðar alls á ári, lækkuðu eilítið strax árið 2018 í rúma 11 milljarða. Sama ár var lögum um veiðigjöld breytt og árið 2019 námu veiðigjöld 6,6 milljörðum. Í fyrra lækkuðu þau enn og voru 4,7 milljarðar,“ segir hann.

Ólafur bendir á að ef miðað er við markaðsvirði kvóta á leigumarkaði þá borgi kvótahafar 6 prósent af raunvirði kvótans fyrir afnot hans. Kvótinn sem íslenska ríkið afhendir fyrir 4,7 milljarða sé í raun 80 milljarða virði.

„80 milljarðar er það verð sem markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir veiðiheimildirnar. Þetta er því ríkisstuðningur upp á um 75 milljarða á ári. Til samanburðar má nefna að alls renna um 77 milljarðar til rekstrar Landspítalans á þessu ári. Ríkið er því að styðja kvótahafa um heilan Landspítala á hverju einasta ári. Minna gagn gera má, en núverandi lög um veiðigjöld miða að því að auka þennan stuðning enn.“